Um mig

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Velkomin!

Mig hefur lengi langað að eiga stað þar sem ég held utan um uppskriftirnar mínar og deila þeim með ykkur á sama tíma. Ég líkt og flestir fæ hugmyndir og innblástur af netinu á hverjum degi, hvort sem það er á Instagram, Pinterest eða bara gamla góða Google.

Það gefur mér einhverja ró að stússast í eldhúsinu, prófa nýjar uppskriftir og sjá hvernig heppnast. Ég á það til að eiga fulla skápa af allskyns tilraunarstarfsemi og færi ættingjum og vinum oft bakkelsi óumbeðin því mig bara langaði að prófa nýja uppskrift.

En svo ég kynni mig þá heiti ég Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir og starfa sem skrifstofustjóri hjá Ístak á daginn. Menntuð í Menningarstjórnun frá Bifröst, til að nefna eitt. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á skapandi greinum og í tengslum við matargerð þá starfaði ég um tíma hjá Gestgjafanum og við vöruþróun hjá Kruðerí fyrir kaffihús Kaffitárs.