Sætir bitar

Lakkrís möffins

November 18, 2022
lakkrís möffins

Lakkrís möffins eða muffins hvort sem þú segir erum við ekki sammála um að þær eru alltaf svo ljúfar og góðar, einfaldar kökur. Það var eiginlega tilviljun sem þessar urðu til, ég var í tilraunastarfsemi í eldhúsinu eins og svo oft og þær smullu svona skemmtilega saman.

Þær eru þéttar í sér, með biti frá súkkulaðinu, sætar og lakkrísinn gefur svo gott eftirbragð. Ég get gúffað í mig hættulega mörgum. Ef þér þykir lakkrís góður þá mæli ég með að þú prófir.

Ég notaði í þær lakkrísduftið frá Johan Bulow en þið fáið það í Epal og mögulega fleiri verslunum, hægt væri að skipta því út fyrir fínmulinn lakkrís brjóstsykur ef ekki er hægt að nálgast lakkrísduft.

lakkrís möffins

Lakkrís möffins 10-12 stk

100 g smjör
100 g sykur
100 g marsípan
2 egg
70 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1-2 msk lakkrísduft frá Johan Bulow
50 g hvítt súkkulaði

Stillið ofn á 180°c. Bræðið smjörið og setjið í hrærivél ásamt sykri og niðurrifnu marsípani en auðvelt er að rífa það með rifjárni. Þeytið saman og bætið eggjunum saman við eitt í einu og þeytið í 1-2 mín, þangað til létt og ljóst.

Bætið þá hveiti og lyftidufti saman við og blandið létt saman.

Gott er að setja lakkrísduftið í mortel til að mylja það aðeins niður í fínna duft. Skerið súkkulaðið niður og bætið saman við deigið ásamt lakkrísduftinu og hrærið með sleikju.

Deilið í möffins form og fyllið hvert form u.þ.b. tvo þriðju. Setjið inn í ofn og bakið í 10 mín.

Þær eru jafn dásamlegar nýkomnar úr ofninum með mjúku súkkulaði eða búnar að kólna og súkkulaðið orðið stökkt aftur.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like