Bakstur/ Sætir bitar

Súkkulaði karamella (Fudge)

December 29, 2019
fudge

Þessir bitar eru svo tilvaldir í kringum jólin, afmæli eða veislur. Harðir að utan en bókstaflega bráðna upp í manni. Æðislegir með kaffinu.


Súkkulaði karamellu- Fudge

800 g sykur
125 g smjör
125 g mjólk
½ tsk salt
200 g niðursoðin mjólk
200 g dökkt súkkulaði

Undirbúið form til að hella blöndunni í, best er að nota ferkantað form 20×20 en hægt er að nota það sem til er. Setjið bökunarpappír í formið og spreyið að innan með smjör/olíu spreyi.

Saxið súkkulaðið fínt.

Setjið öll hráefnin saman í stóran pott fyrir utan súkkulaðið og stillið á lágan hita. Hrærið í endrum og sinnum en hráefnin munu blandast saman og byrja að sjóða og mynda stórar loftbólur. Ef þið eigið sykurmælið fylgist með honum en blandan er klár þegar hún hefur náð 118°c. Ef þið eigið ekki mæli eins og ég sjálf þá er gott að ná sér í glas með köldu vatni og eftir u.þ.b. 15-20 mín að taka teskeið og setja smá karamellu ofan í glasið og sjá hvort hægt sé að móta kúlu úr karamellunni, ef hún sekkur bara til botns og losast upp í vatninu er hún ekki tilbúin.

Þegar karamellan er tilbúin færið pottinn af hita og bætið súkkulaðinu saman við. Þegar súkkulaðið er bráðið saman við, takið handþeytara og hrærið vel í blöndunni í 2-3 mínútur eða þangað til að beinar rákir eru farnar að myndast í henni.

Hellið í form og leyfið að standa í u.þ.b. 30 mín og skerið í litla ferninga án þess að taka upp úr forminu. Látið svo kólna alveg áður en það er tekið úr forminu og tekið í sundur. Geymið í boxi við stofuhita- geymist vel í nokkrar vikur.

Njótið!

You Might Also Like