Í útileguna/ Kökur

Bananasæla

May 24, 2023
bananasæla

Ég fór eitthvað að spá í því miðað við hvað hjónabandssæla er vinsæl á Íslandi, þá hef ég sjaldan séð einhver ný tvist af henni. Það allaveganna poppuðu upp fullt af allskonar hugmyndum upp hjá mér þegar ég fór að pæla í þessu. Svo ef þið hafið prófað einhverja skemmtilega og góða samsetningu endilega deilið því í kommentunum hér fyrir neðan.

En ég ákvað að stappa banana og setja súkkulaði með því og það klikkaði auðvitað ekki, þar sem ég er ekkert agaleg sultukona þá var ég eiginlega á því að þetta væri betra en original-inn. En sitt sýnist hverjum. Fullkomið ef maður á banana sem eru að detta á tíma og þig langar ekki enn og aftur í bananabrauð – þó þau standi auðvitað alltaf fyrir sínu eins og þetta hér.

bananasæla
bananasæla

Bananasæla

200 g smjör, við stofuhita
150 g sykur
200 g hveiti
170 g haframjöl
1 tsk matarsódi
1 egg
örlítið salt

2 bananar
200-250 g súkkulaðismjör

Stillið ofn á 190°c. Skerið smjörið í niður í litla kubba. Bætið öllum hráefnunum saman í hrærivélarskál. Gott er að setja viskastykki meðfram brúninni á vélinni áður en hún er sett af stað, til að koma í veg fyrir að þurrefnin skvettist upp fyrir. Blandið þangað til að allt er samlagað.

Takið form af stærðinni 20-25 cm og spreyið með Pam spreyi, pressið þá 2/3 af deiginu niður í formið.

Stappið bananana og dreifið yfir deigið. Þá er súkkulaðismjörið sett yfir en gott er að setja það örsnöggt í örbylgjuofn til að það sé auðveldara að dreifa úr því.

Þegar bananarnir og súkkulaðismjörið er komið á takið restina af deiginu og myljið yfir, mér persónulega finnst girnilegast þegar það glittir í súkkulaðið inn á milli deigsins.

Setjið inn í ofn og bakið í 30 mín eða þangað til að toppurinn er orðinn gullinn brúnn.

Leyfið kökunni að kólna vel áður en þið skerið hana í bita.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like