Stundum fæ ég ótrúlegustu hugmyndir, kaupi eitthvað spennandi hráefni og get ekki hætt að hugsa um það fyrr en ég geri eitthvað úr því. Það var tilfellið núna með lavender blómin sem ég keypti á dögunum. Mig langaði svo að prófa þau í einhverri uppskrift og úr varð þessi uppskrift með lofnarblómum eða lavender eins og við þekkjum það. Hvað passar betur með lavender en hunangs svo þetta var tilvalið til að prófa saman og heppnaðist svo vel!
Ég keypti lavender blómin í krydd deildinni í Flying Tiger. Svo ég mana ykkur til að prófa þessa uppskrift þið verðið ekki svikin.
Bollakökurnar – 12 stk
2 msk þurrkuð lavender blóm
120 ml mjólk
120 g hveiti
130 g sykur
1½ tsk lyftiduft
40 g smjör, við stofuhita
1 egg
Blandið lavender blómunum saman við mjólk, hrærið í og setjið inn í ísskáp og kælið í 1-2 klst.
Stillið ofn á 170°c. Setjið hveiti, sykur, lyftiduft og smjör saman í hrærivél og hrærið varlega saman þangað til að deigið líkist mylsnu. Sigtið lavender blómin frá mjólkinni og hellið mjólkinni í mjórri bunu saman við deigið. Bætið egginu saman við og þeytið vel saman. Takið til bollakökuform og fyllið u.þ.b. tvo þriðju formanna með deigi. Skellið inn í miðjan ofn í 20 mínútur. Leyfið kökunum að kólna áður en að kremið er sett á þær.
Krem
125 g smjör
250 g flórsykur
2 msk rjómi
50 g hvítt súkkulaði
30 g hunang
Setjið smjörið í hrærivél og hrærið í 2-3 mín. Bætið flórsykri og rjóma saman við og þeytið í dálitla stund. Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Bætið hunangi og súkkulaði saman við og þeytið í 1-2 mín í viðbót. Setjiið kremið í sprautupoka og skreytið að vild, ég notaði 2M stútinn frá Wilton til að gera rósirnar.