Smákökur

Smákökur með trönuberjum, hvítu súkkulaði og rósmarín

March 28, 2020
döðlur og smjör

Stundum er andinn yfir manni og þannig hafa dagarnir mínir dálítið verið, ég fæ einhverja hugmynd og ég bara verð bara að framkvæma og prófa. Ég fékk ábendingu frá einni af vinkonum mínum að væri bókstaflega að brjóta reglurnar. Fyrst lavender í bollakökur og núna rósmarín í smákökur.

Ég lofa að ég er ekki að verða kúkú en þetta voru SVO góðar smákökur og rósmarín gaf þeim svona auka kikk, virkaði svo vel! Það er að sjálfsögðu hægt að sleppa því og þær bragðast að sjálfsögðu glimrandi án þess en ef þig langar að treysta mér þá mæli ég svo innilega með að þið skellið smá rósmarín með allaveganna pínkupons.

smákökur

Það er ótrúlega gaman að leyfa hráefnunum dálítið að leiða sig áfram í matargerð. Hugsa út frá einu hráefni og vinna sig út frá því og útkoman er oft eitthvað nýtt og spennandi – Jahh í sumum tilvikum auðvitað á það til að bragðast ekki alveg svo vel.


Smákökur – 14 stk

170 g smjör, við stofuhita
120 g púðursykur
50 g sykur
1 egg
½-1 tsk ferskt rósmarín (má sleppa)
2 tsk vanilludropar
140 g hveiti
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
180 g haframjöl
100 g hvítt súkkulaði, dropar
50 g trönuber, þurrkuð

Stillið ofn á 175°c. Setjið smjör, púðursykur og sykur saman í skál og þeytið saman í 1-2 mín. Saxið rósmarín greinarnar smátt niður. Bætið eggi, vanilludropum og rósmarín saman við og blandið vel saman. Bætið hveiti, matarsóda og salti saman við og hrærið létt saman. Þá er haframjölinu, súkkulaðinu og trönuberjum blandað saman við og hrært saman þangað til allt er samlagað.

Gott er að vigta deigið svo það kökurnar verði jafnar. Til að fá 14 stk er hver kaka 60 g. Mótið kúlu úr þeim og þrýstið létt á þær með lófanum. Setjið inn í ofn og bakið í 10-12 mín. Leyfið kökunum að kólna í 10-15 mín minnst.

döðlur og smjör

You Might Also Like