Sætir bitar

Banana & súkkulaði pæ (óbakað)

August 4, 2021
súkkulaði og bananapæ

Einfaldur bakstur til að koma sér af stað í baksturgírinn eftir þónokkra lægð á meðgöngu og fyrsta mánuðinn á eftir. Við höfum bara verið að njóta í botn og kúra sem mest nebba í nebba.

Þetta pæ er alveg ofur einfalt og tilvalið í bústaðnum, sem eftirréttur eða bara til að gera eithvað gott að því manni langar það. Því flækjustigin þurfa oft ekki að vera mörg til að gera eitthvað ótrúlega gott! Svo mæli með að þið prófið!


Súkkulaði & bananapæ – fyrir 4 –

200 g oreo (hægt að kaupa mulið oreo í sumum verslunum)
2 msk púðursykur
100 g smjör, bráðið
örlítið salt

Myljið kexið í matvinnsluvél eða setjið það í plastpoka og berjið með einhverju þungu eins og kökukefli. Blandið vel saman mylsnunni við púðursykurinn, bráðna smjörið og saltið. Takið 20 cm form eða ílát af þínu vali og þrýstið mylsnunni í botninn og upp með hliðum.

Gott er að kæla botninn í stuttu stund, 10-15 mín til að leyfa botninum að þéttast.

Fylling

2 bananar
100 ml súkkulaðismjör (Nutella eða Nusica t.d.)
250 ml rjómi
Hnetur, til skrauts

Skerið niður banana í sneiðar. Velgið súkkulaðismjörið lítillega, svo auðveldara sé að smyrja úr því og þeytið rjómann.

Takið þá botninn úr kæli og dreifið bananasneiðunum yfir. Ofan á bananana dreifið þið úr súkkulaðismjörinu jafnt yfir. Í lokin er þeytti rjóminn tekinn og settur yfir súkkulaðið.

Gott er að rista hnetur og dreifa yfir eða rífa niður súkkulaði með rifjárni yfir – Bara það sem hugurinn girnist.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like