Sykurlaust

Dásamleg döðlukaka í hollari kantinum

January 30, 2021
döðlukaka

Þessi kaka hefur lengi verið í gamalli stílabók hjá mér en það er ekki nýtt á nálinni að ég sé að prófa mig áfram í uppskriftagerð og prófa hinar og þessar uppskriftir. Þegar ég bjó ein í Danmörku var þetta mitt helsta áhugamál svona fyrir utan skólann þar sem ég var í námi í fatahönnun. Margar dásamlegar uppskriftir voru prófaðar og þróaðar þar.

En það er dálítið síðan að ég hef skellt í þessa köku og var eiginlega búin að gleyma hvað hún væri dásamleg en að mínu mati er mjög mikilvægt að borða hana með smá slettu af rjóma, það er bara dásamleg blanda. Einföld í framkvæmd og geymist vel.

Döðlukaka

1 dl döðlumauk (6 ferskar döðlur & u.þ.b. ½ dl vatn)
4 eggjahvítur
100 g döðlur, saxaðar
50 g suðusúkkulaði (hægt að skipta út fyrir sykurlaust súkkulaði)
1 dl kókosmjöl

Setjið saman döðlur og vatn í pott á miðlungs stillingu og leyfið að malla þangað til það er orðið að mauki.

Stillið ofn á 170°c blástur. Stífþeytið eggjahvíturnar, hægt er að kaupa saxaðar döðlur en ef þið notið heilar skerið þær niður í litla bita ásamt súkkulaðinu. Setjið döðlumaukið, döðlurnar, súkkulaðið og kókosmjölið saman við eggjahvíturnar og hrærið varlega saman með sleikju.

Spreyið 20 cm form að innan með PAM spreyi en einnig hægt að setja bökunarpappír í botninn. Skellið deiginu í formið og bakið í 15-20 mín. Leyfið kökunni að kólna.

Krem

100 g dökkt súkkulaði
2 msk kókosolía
½ dl kókosmjólk

Setjið hráefnin saman í skál og bræðið saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni, leyfið því að kólna og taka sig í smá tíma, dreyfið kreminu síðan yfir kökuna.

Ef kakan er borðuð samdægurs er ótrúlega gott að setja banana yfir kökuna í sneiðum og síðan kremið yfir. Svo er eiginlega mikilvægt fyrir þá sem finnst rjómi góður að bera hana fram með rjóma.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like