Eldað

Fyllt kalkúnarbringa

December 1, 2022
Fyllt kalkúnabringa

Samstarf // Lindsay

Það er alveg dásamlegt að geta skellt í kalkún án þess að þurfa að elda heilan fugl. Svo ef bringan er fyllt erum við komin með dýrindis hátíðarmat. Þessi fylling hef ég gert frá því ég var svona 12-13 ára. Þetta var alltaf hlutverkið mitt fyrir áramóta kalkúninn, ég hef prófað margar aðrar fyllingar en kemst alltaf að því að mér finnst þessi hreinlega best.

Einfalt er að fletja bringuna út og gott að berja hana með kökukefli eða mathamri til að hún sé ekki misþykk og svo ef þið eruð óörugg í að binda hana saman þá mæli ég bara með tækninni og kíkja inn á youtube t.d. þetta myndband hér.

Svo mæli ég með rósarkálinu og koníak sveppasósunni með, fullkomin hátíðarmáltíð.

fyllt kalkúnarbringa

Kalkúnafylling – fyrir tvær bringur –

200 g sveppir
1 stk laukur
40 g smjör
200 g beikon
100 g fínt brauð (5 sneiðar)
1 stk grænt epli
50 g heslihnetur
1 hnefi steinselja
2 msk Bezt á kalkún, krydd
salt & pipar eftir smekk

Skerið sveppi og lauk gróft, setjið á pönnu ásamt smjöri og steikið í 4-5 mín. Takið af pönnunni og setjið í matvinnsluvél. Skerið þá beikonið niður og steikið á pönnunni þangað til að það er orðið fulleldað.

Skerið skorpuna af brauðinu og skrælið eplið og brytjið niður. Setjið brauðið og eplið út í matvinnsluvélina ásamt heslihnetum, steinselju og kryddi og þá loks beikonið af pönnunni.

Blandið vel saman og stoppið og skrapið niður með hliðunum ef þess þarf.

Undirbúningur fyrir eldun

2 smjörsprautaðar kalkúnabringur u.þ.b. 800 g hvior
2 msk Bezt á kalkún, krydd
eldunarvænt garn

Leggið plastfilmu yfir borðið og leggið kalkúnabringuna ofan á, skerið í bringuna, til að hjálpa til við að fletja hana út. Þegar þið hafið skorið í hana leggið aðra filmu yfir og lemjið hana með kjöthamri eða kökukefli. Best er að hún verði jöfn á þykkt og ummál.

Takið filmuna af og dreifið helmingnum af fyllingunni yfir bringuna og rúllið henni upp. Bindið hana með garni, ef þið eruð óviss hvernig er best að binda mæli ég með að fletta því upp á Youtube og þið verðið orðin meistarar í því á fimm mínútum. Endurtakið ferlið með seinni bringuna.

Stillið ofn á 180°c. Leggið bringurnar á grind með ofnskúffu undir, gott er að setja 500 ml af vatni í ofnskúffuna til að halda raka í bringunum. Eldið bringurnar í u.þ.b. klst eða þangað til að þær hafa náð 70°c kjarnhita.

Takið bringurnar út og takið garnið af þeim og berið fram.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like