Eldað

Rósakáls gratín

December 1, 2022
rósarkálsgratín

Ég veit ekki hvort að fleiri tengja en ég ólst upp við að horfa á Amerískar bíómyndir og þætti þar sem var svo oft verið að tala um hvað rósarkál væri vont. Eina sem maður tengdi var að þetta væri eitthvað óæti sem öðrum hvorum manni í sjónvarpinu þætti vont.

En svo er ekkert það mörg ár síðan að maður fór að fá rósarkál í búðum svona almennt og guð minn góður hvað ég skil ekki fólkið sem finnst þetta vont því mér finnst það hreinlega svo gott. Svo þegar það er búið að nostra við það eins og í þessu gratíni þá er það yfirleitt uppáhaldið mitt á borðinu en ég er vissulega mikil meðlætiskona.

Gratínið er frábært á hátíðarborðið en einnig til að poppa upp einfalda máltíð. Þið verðið ekki svikin!


Rósarkálsgratín – fyrir 4-6 –

500 g rósakál
4 gulrætur
100 g beikon
3 skalottlaukar
1 msk hveiti
3 hvítlauksrif
150 ml parmesan ostur
250 ml rjómi
1 msk dijon sinnep
1 tsk timjan
½ tsk pipar
50 ml brauðrasp
100 ml rifinn ostur

Stillið ofn á 180°c. Skerið rósakálið í tvennt og gulræturnar í 1 cm stóra bita. Gufusjóðið rósakálið og gulræturnar í 5-8 mín.

Skerið beikonið og steikið þangað til það er orðið stökkt og leggið til hliðar á pappír. Skerið þá laukinn niður og afhýðið hvítlaukinn, bætið lauknum á pönnuna og steikið í 1-2 mín og bætið þá kreistum hvítlauk saman við. Bætið hveiti, 100 ml parmesan ost og beikoninu saman við laukinn og hrærið vel saman og bætið þá rósakálinu og gulrótum saman við. Blandið saman í skál rjóma, dijon sinnepi, timjan og pipar og hrærið vel saman.

Setjið þá allt í eldfast mót og hellið rjómablöndunni yfir. Blandið saman í aðra skál brauðraspi, rifnum osti og 50 ml af parmesan osti. Dreifið yfir réttinn og setjið inn í ofn og eldið í 25-30 mín eða þangað til að osturinn er farinn að brúnast.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like