Kökur

Kanilkaka með rjómaostakremi

May 22, 2020
kanilkaka

Gulli kom með þá hugmynd um daginn að ég skyldi vera duglegri að skíra kökurnar mínar einhverjum skemmtilegum nöfnum, draumakakan, besta kakan eða eitthvað í þá áttina eftir að hafa lesið um einhverja köku sem bar svipað nafn.

Ég er eitthvað ótrúlega plain í þessum málum, segi bara það eins og það er eins og hér erum við með kanilköku og hún er með rjómaostakremi- nafnið bara komið! Ég bað hann reyndar um að aðstoða en það kom lítið út úr því. Svo ef það rata kökur hingað inn sem heita einhverju draumanafni þá vitið þið að Gulli kom að nafnagiftinni.

En frá því um páskana hef ég verið í smá baksturslægð sökum flutninga og er svona hægt og rólega að byrja að finna mig í nýju eldhúsi. Þurftum að endurnýja ofninn þar sem hann sá sem var í húsinu stóðst ekki mínar væntingar og ég fékk loksins að kaupa minn eigin ofn. Eftir að hafa bakað aðeins í honum og eldað get ég sagt að ég er glimrandi glöð með þessi kaup. Keypti þennan hér hjá Rafha. Gæti skrifað heila færslu um ágæti þessa ofns ég er það sátt. Þið sendið mér bara línu á Instagram ef þið viljið vita meir og ég fræði ykkur um ofninn.

En komum okkur að uppskriftinni!

Kanilkaka

3 egg
150 g sykur
220 g hveiti
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt
2 tsk vanilludropar
100 g smjör
100 ml mjólk

2 msk sykur
1 msk púðursykur
1 tsk kanill
½ tsk kardimommur (má sleppa)

Stillið ofn á 175°c, blástur. Hrærið saman eggjum og sykri þangað til það er létt og ljóst. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið varlega saman. Bræðið smjörið í örbylgjuofni eða í potti, blandið saman við ásamt mjólkinni. Hrærið vel saman. Takið form og smyrjið að innan með smjöri eða PAM spreyi. Hér nota ég form sem er 20×20 cm en hægt er að nota hringlaga 20 cm form eða formkökuform.

Blandið saman kanilsykrinum.

Setjið helminginn af deiginu í formið, stráið kanilsykrinum yfir og hellið restinni af deiginu yfir. Inn í ofn og bakað í 20 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn út, þegar stungið er í miðjuna á kökuna. Kælið kökuna áður en kremið er sett ofan á.

Rjómaostakrem

100 g rjómaostur, við stofuhita
50 g smjör, við stofuhita
150 g flórsykur
2 tsk vanillusykur
salt á hnífsoddi

Hrærið rjómaost og smjör vel saman, þangað til að það hefur blandast vel. Bætið flórsykri, vanillusykri og salti saman við og hrærið varlega fyrstu 30 sek, bætið þá í hraðann og leyfið að hrærast vel saman á miklum hraða í 2-3 mín.

Smyrjið kreminu yfir kökuna og skreytið að vild.


Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor

You Might Also Like