Deigbakstur/ Í útileguna

Dásamlegir súkkulaði & kardimommu snúðar

June 5, 2020
snúðar

Stundum fæ ég hugmyndir að einhverjum bakstri og ég er alveg eirðarlaus þangað til ég fer af stað og prufa það sem er að brjótast um í höfðinu á mér.

Það var það sem gerðist á miðvikudaginn var. Ekki nóg með það að ég væri að sinna vinnunni minni heima og undirbúa 7 ára bekkjarafmæli seinna um daginn, þá ákvað ég að skella í nýja snúða uppskrift- sem kom svona glimrandi vel út!

Bekkjarafmælið lukkaðist líka svona svakalega vel, mér leið svona eins og þegar ég var að halda eins árs afmælið hans Karels, þegar ég var smá stressuð, vissi að það var engin ástæða til að vera stressuð en stressið var samt til staðar. En svo skemmtu þau sér svo vel elsku krakkarnir. Úti afmæli og erum við svo heppin að hafa Byggðarsafn Hafnarfjarðar í bakgarðinum og var partýið haldið þar. Kötturinn sleginn úr tunnunni og það sem var aðal hittarinn var að þau fengu að fara hring á mótorhjólinu með Gulla. Gera það væntanlega ekki í mörgum afmælum. Alsæll drengur með afmælið sitt, sem er reyndar ekki fyrr en í lok júlí og var það fyrir öllu.

En vindum okkur í snúðana! Þeir voru allt sem ég vonaði að þeir yrðu og verður baksturinn endurtekinn strax við tækifæri.


Snúðar

250 ml mjólk
2 tsk (6 g) þurrger
400-450 g hveiti
50 g sykur
1 tsk kardimommur
75 g smjör, við stofuhita
klípa af salti

Byrjið á því að velgja mjólkina upp í u.þ.b. 37 °c í örbylguofni eða í potti. Setjið mjólkina í hræriskálina ásamt restinni af hráefnunum. Gott er að byrja að setja 400 g af hveiti saman við og bæta aðeins við eftir þörf ef deigið er vel blautt. Setjið krókinn á vélina og leyfið vélinni að vinna í rúmar fimm mínútur. Einnig er hægt að vinna deigið í höndunum. Deigið er frekar blautt en það á samt að vera hægt að koma við það örstutt án þess klístrast við það. Setjið rakann klút yfir deigið og leyfið því að hefast í minnst klst.

Fylling

100 g smjör, við stofuhita
75 g sykur
4 msk af kakó

Hrærið öllum hráefnunum saman, ef smjörið er full kalt er gott að setja blönduna inn í örbylgjuofn í nokkrar sekúndur og hræra hráefnunum síðan saman.

Samsetning

Þegar deigið er búið að hefa sig, stráið hveiti á borðið og takið deigið úr skálinni og leggið á borðið. Stráið smá hveiti yfir deigið og fletjið út með kökukefli. Reynið að halda deiginu eins ferningslaga og hægt er. Fletjið út þangað til það er orðið vel þunnt.

Dreifið fyllingunni yfir deigið og smyrjið úr henni jafnt yfir deigið. Brjótið deigið í tvennt, á þverveginn. Rúllið rétt yfir deigið með fyllingunni í. Takið pizzaskera eða hníf og skerið línur þvert yfir u.þ.b. 2 cm á breidd. Takið hverja línu af deigi og snúið upp á. Við sjáum myndband. Það er að sjálfsögðu hægt að rúlla deiginu upp og skera hefðbundna snúða ef við viljum ekkert vera að flækja hlutina frekar.

Leggið snúðana á bökunar pappírsklædda plötu og leyfið að hefast á ný í 30 mín.

Kveikið á ofninu og stillið á 200°c, blástur.

Þegar snúðarnir eru tilbúnir penslið þá með mjólk og stráið yfir þá perlusykri, algjörlega valfrjáls. Snúðarnir settir inn í ofn og bakaðir í 10-12 mín. Takið út og leyfið að kólna í smá stund. Njótið svo meðan þeir eru volgir, algjör dásemd!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like