Kökur

Vanillukaka með kókos og Dumle kremi

April 8, 2022
vanillukaka

– Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnilegan –

Við íslendingar erum rosaleg súkkulaðiköku þjóð, mér finnst sjaldan sem boðið er upp á vanillukökur í veislum og svona. En þær eiga svo sannarlega skilið sitt pláss á veisluborðunum svo skemmtilegt að leika sér með bragðtegundirnar sem para flestar við vanillubotnana.

Að þessu sinni ákvað ég að nota kókos smyrju sem ég prófaði nýlega og dolféll fyrir, ég er mögulega búin að prófa að setja hana á flest sem ég get sett hana á, vöfflur, pönnukökur, kökur you name it! Ég mæli með að smakka hana! En ef þið eruð ekki í kókos liðinu ekki láta það stoppa ykkur heldur skellið í vanillubotnana, gerið kremið og leikið ykkur með því að setja karamellusósu á milli, súkkulaðisósu eða jafnvel banana það er svo margt sem passar með þessari.

vanillukaka
vanillukaka
dumle vanillukaka

Vanillukaka

400 g hveiti
80 g maizena
340 g sykur
30 g – 4 tsk lyftiduft
230 g smjör, við stofuhita
4 egg
300 ml mjólk
40 ml olía
2 tsk vanilludropar

Stillið ofn á 170°c. Blandið þurrefnunum saman í hrærivélarskál. Skerið smjörið í litla kubba, setjið hrærivélina í gang á lægstu stillingu og bætið smjörkubbunum hægt og rólega saman við þurrefnin. Á meðan þetta hrærist vel saman blandið þá blautefnunum saman og hrærið létt í því. Þeim er svo helt út í á sama hátt og smjörið hægt og rólega með vélina í gangi. Leyfið þá öllu að blandast vel saman og það er mikilvægt að stoppa vélina og skafa með fram brúnum og setja hana stutt á stað aftur.

Takið þá þrjú 15 cm form eða 2 20-25 cm form og spreyið með PAM spreyi. Ég vigta deigið mitt og deili í formin en það er ekki nauðsynlegt (munið bara að draga þyngd skálarinnar frá ef þið vigtið en KitchenAid skál er u.þ.b 800 g)

Setjið inn í ofn og bakið í 35-40 mín eða þangað til að pinni kremur hreinn út í miðjunni. Takið þá botnana úr ofninum og leyfið að kólna. Ég á það til að pressa aðeins á botnana með hringlaga disk eða einhverjum sem passar ofan í til að slétta botnana í stað þess að skera ofan af þeim þegar þeir kólna. Gott er að taka síðan botnana úr formi og setja í plastfilmu og kæla inn í ísskáp, því betra er að setja kökuna saman þegar botnarnir eru kaldir.

Dumle smjörkrem

150 g Dumle súkkulaðikaramellur
50 ml rjómi

300 g smjör
500 g flórsykur
3 msk rjómi

1 krukka So Vegan So Fine kókossmyrja (fæst Fjarðakaup og Hagkaup)

Byrjið á því að setja Dumle karamellurnar í skál ásamt rjómanum. Bræðið yfir vatnsbaði á meðalhita, þ.e. vatn sett í pott og skálin yfir pottinn. Leggið síðan blönduna til hliðar, til að leyfa henni að kólna eða hitið í örbylgjuofni.

Setjið smjör í hrærivél og leyfið að þeytast í 2-3 mín, bætið síðan flórsykrinum rólega saman við ásamt rjómanum. Haldið áfram að þeyta vel og bætið síðan súkkulaðinu saman við og kremið þeytt í nokkrar mín. í viðbót.

Áður en kremið er sett á er gott að fara með sleikju meðfram skálinni og passa að allt sé vel blandað saman og renna í gegnum kremið með sleikjunni, til að losa loftið úr kreminu sem gefur því fallegri áferð þegar það er sett á kökuna.

Samsetning

Gott er að baka kökurnar daginn áður en þær eru samsettar og skreyttar, það er heldur ekkert síðra að baka kökurnar tímalega vefja þær í plast og setja í frysti þangað til þær eru notaðar.

Setjið fyrsta botninn á disk og svona u.þ.b dl af kremi ofan á botninn, dreifið vel úr kreminu og setjið yfir það 2-4 msk af kókos smyrjunni. Þá er næsti botn settur ofan á ferlið endurtekið. Þriðji botninn er settur ofan á og restin af kreminu sett á kökuna og dreift vel úr kreminu.

Til að fá slétta áferð á kremið er gott að fara þunna umferð og skrapa vel af kökunni og setja í kæli í stutta stund. Kakan er svo tekin út og önnur umferð af kremi sett á hana, slétt vel úr kreminu. Að þessu sinni skreytti kökuna með einfaldri smjörkrem skreytingu, blómum og laufum- En þið getið séð aðferð í Reels hjá mér á Instagram. Einnig er fallegt að skreyta hana með lifandi blómum eða leyfa hugmyndarfluginu ykkar að ráða.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like