Kökur

Litlar pavlovur með vanillu & berjum

December 21, 2022
Litlar pavlovur

Samstarf // Royal

Litlar pavlovur eru svo fallegar, það er eitthvað við þær, glansandi marengsinn, mjúk miðjan og svo fylling sem gefur pavlovunni karakter. Að þessu sinni er stjarnan vanillu búðingurinn frá Royal.

Mér persónulega finnst bragðbættur rjómi ekkert sérstaklega góður, þegar búið er að bæta sykri og fleira í hann. Aftur á móti þegar maður blandar rjóma við mjólkina og búðinginn verður hann svo kremkenndur og dásamlega bragðgóður að ég gæti setið með skálina eintóma. Frábær tilbreyting frá rjómanum eða smjörkremi og hægt að leika sér með hann á kökur, bollur og allt það sem hugurinn girnist.

litlar pavlovur

Litlar pavlovur – u.þ.b. 8 stk –

125 g eggjahvítur
170 g sykur
2½ tsk maizena mjöl
1 tsk edik

Stillið ofn á 100°c. Aðskiljið eggin, vigtið eggjahvíturnar og setjið í hrærivélina ásamt þeytara. Setjið vélina af stað og á meðan vigtið sykurinn og bætið honum saman við eggjahvíturnar í nokkrum skömmtum. Stífþeytið marengsinn, þegar hann er orðinn stífþeyttur bætið maizena mjöli og ediki saman við og hrærið léttí 20-30 sek.

Gott er að setja marengsinn í sprautupoka með hringlaga stút og sprauta á bökunarpappírsklædda plötu. Áætlið að hver pavlova sé um 7-8 cm í þvermál og 5-6 cm á hæð.

Þegar búið að sprauta þá á plötuna er gott að taka skeið gera smá brunn í miðjunni og slétta brúnirnar. Gaman er að leika sér með kantana hvernig áferð maður vill.

Bakið í 75 mín, gott er að slökkva á ofninum og opna hurðina aðeins og leyfa þeim að kólna þannig.

Vanillu fylling

250 ml rjómi
250 ml nýmjólk
1 pk vanillubúðingur frá Royal

Blandið öllu saman í skál og hrærið vel, helst með rafmagnsþeytara. Setjið fyllinguna í sprautupoka með hringstút.

Samsetning

Jarðaberjasulta
Jarðaber
bláber
rjómasúkkulaði

Byrjið á því að taka matskeið og brjóta aðeins ofan í miðjunni á pavlovunni til að búa til aðeins meira rými fyrir fyllingu. Setjið þá eina matskeið af jarðaberjasultu í miðjuna á hverri pavlovu. Takið þá vanillufyllinguna og sprautið ofan í og vel ofan líka endurtakið við allar.

Þá er bara að skera niður jarðaber og bláber og skreyta, bræða smá rjómasúkkulaði og drissla yfir.

Ef þær eru ekki bornar fram strax er best að geyma þær í kæli.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like