Kökur/ Morgunmatur

Jarðaberja skyrkaka með berjum

April 10, 2020
skyrkaka

Það er hægt að leika sér endalaust að gera skyrkökur en mér finnst líka ótrúlega gott að búa til látlausa og klassíska skyrköku inn á milli, án þessa að flækja hlutina mikið. Stundum er einfaldleikinn góður.

Svo hér kemur sú klassíska sem er oft gerð á mínu heimili við alls kyns tilefni.

Hér er hún gerð með jarðaberja curdi en því er að sjálfsögðu hægt að skipta út fyrir fersk jarðaber eða jarðaberjasultu.

skyrkaka

Jarðaberja curd

1 egg
1 eggjarauða
40 g smjör
35 g sykur
140 g jarðaber
1 msk sítrónusafi
1 tsk sítrónubörkur

Setjið öll hráefnin saman í blandara og blandið vel saman í 1-2 mínútur. Ekki láta blekkjast í byrjun að það skilji sig en það blandast saman eftir góða stund í blandaranum.

Færið yfir í pott og stillið á lágan hitta og hrærið jafnt og þétt í blöndunni. Eftir nokkrar mínútur fer blandan að þykkna, þá takið þið pottinn af hita og færið í ílát og kælið inn í ísskáp.

Hægt er að gera jarðaberja curdið og eiga inn í ísskáp og geymist það alveg í tvær vikur inn í ísskáp svo gaman að eiga til að nota í allskyns bakstur eða eftirrétti.

Botn

1 pk Lu Kanilkex
100 g smjör

Myljið kexið í matvinnsluvél, einnig er hægt að setja það í plastpoka og lemja á það með kökukefli þangað til að það er orðið fín mylsna. Setjið mylsnuna í form (hægt er að nota breið og grunn form eða minna form og þá dýpra).

Bræðið smjörið og hellið yfir mylsnuna og hrærið vel í með skeið svo smjörið dreifist jafnt yfir. Dreifið svo vel úr yfir botninn og þrýstið niður í botninn. Setjið inn í kæli þangað til að skyrblandan fer yfir.

Skyrkaka

300 ml rjómi
500 ml vanilluskyr
2 msk flórsykur
jarðaberja curd

Létt þeytið rjómann. Opnið skyrið og til að spara uppvask blandið flórsykri ofan í skyrdósina og hrærið vel saman. Hellið skyrinu saman við rjómann og blandið í mjúkum strokum. Þegar rjóminn og skyrið er samblandað bætið jarðaberja curdinu saman við.

Hellið yfir kexbotninn og sléttið úr blöndunni. Geymið í kæli í minnst 1-2 klst.

Skreytið eftir hentisemi og notið endilega það sem þið eigið. Hérna notaði ég bláber og hindber og Lindor kúlur sem ég skar í bita. Mér finnst ótrúlega fallegt að skreyta með ferskum berjum og það gerir svo mikið fyrir þessa fersku köku að bæta berjunum við.

Ég elska að gera skyrköku sem eftirrétt eða bara með kaffinu því hún er svo létt í maga og gefur mér allaveganna aðeins betri samvisku að borða kökuna í kaffitíma og jafnvel aftur í desert um kvöldið. Njótið!

döðlur og smjör

You Might Also Like