Deigbakstur

Vanillu snúðar

October 21, 2022
vanillu snúðar

Hvað er betra en volgir snúðar, það er allaveganna fátt! Ég allaveganna á erfitt með að standast þá og þetta er svo fullkominn helgarbakstur, gera deigið í rólegheitum og leyfa því að hefast meðan maður borðar morgunmat eða hádegismat og dunda sér síðan við að fletja þá út og snúa þá upp. Fara síðan út í göngutúr í köldu veðri, koma til baka og gúffa í sig nýbaka snúða – Fullkomin stund fyrir mér!

Ef þið trúið mér ekki þá bara verðið þið að prófa.


Vanillu snúðar – u.þ.b. – 25 stk

200 ml mjólk
12 g þurrger (1 pk)
2 egg
100 g smjör, við stofuhita
1 msk sykur
500 g hveiti (blár Kornax)
1½-2 tsk kardimommur
½ tsk salt

Færið mjólkina í pott og hitið þangað til hún er ylvolg, setjið í hrærivélina og gerið saman við. Hrærið saman með krók og leyfið að hvíla í stutta stund. Takið saman hin hráefnin á meðan. Blandið eggjum, smjöri og sykri saman við og hrærið á lágum hraða. Mælið hveiti, kardimommur og salt saman og blandið út í hrærivélina smá í einu, þangað til allt hveitið er komið saman við. Leyfið vélinni að vinna í 2-3 mín. Leyfið deiginu að hvíla í klukkustund undir volgu viskastykki.

Fylling

150 g smjör, við stofuhita
150 g sykur
2 tsk vanillusykur
1 tsk vanilludropar

Setjið öll hráefnin saman í skál og best er að vinna þau saman með sleikju, þangað til þau hafa blandast vel saman.

100 ml sykur
1 tsk bleikt glimmer frá Odense
1 tsk vanillusykur

Blandið öllu saman í skál.

Samsetning

Rúllið deigið út í ferning u.þ.b. 60×40 cm eða hálfan cm að breidd. Dreifið fyllingunni yfir deigið, gott er að gera þetta með sleikju eða spaða. Leggið deigið saman til helminga á styttri hliðina og rúllið yfir nokkrum sinnum með kökukefli til að þynna deigið aðeins og blanda fyllingunni aðeins saman við deigið sjálft.

Skerið deigið í ræmur u.þ.b. 2 cm á breidd. Takið hverja ræmu og snúið uppá hana, haldið svo í annan endann og snúið deiginu upp hring í kringum fingurna sem halda í endann. Passið að seinni endinn fari undir snúðinn. Einnig er hægt að rúlla deiginu upp og skera í snúða setja á plötu eða eldfast mót þétt saman.

Leyfið snúðunum að hefast í 30 mín. Hitið ofn á 200°c. Eftir að snúðarnir hafa hefast brjótið egg í skál og penslið yfir snúðana. Fallegt er að setja perlusykur yfir snúðana en ekki nauðsynlegt. Bakið snúðana í 20-25 mín eða þangað til þeir eru orðnir fallega brúnir.

Meðan snúðarnir eru enn heitir takið einn í einu og veltið upp úr sykrinum. Ef þeir eru of heitir fyrir hendurnar ykkar notið tvær skeiðar. Leyfið þeim síðan að kólna lítillega.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like