Deigbakstur

Tómat & basilíku galette

August 16, 2022
Tómat og basilíku galette

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Galette er hin fullkomna baka að mínu mati, það er dásamlegt að nostra við fallegar bökur inn á milli en það er líka bara frábært að geta flatt út deigið sett fyllinguna í og inn í ofn hún verður að mínu mati fallega rustic. Það er hægt að leika sér endalaust með innihaldið í svona bökum en ég hef deilt með ykkur tveimur áður Bláberja galette og galette með eplum og möndlum.

Þessi er frábær við ýmis tilefni, í hádeginu á góðum sumardegi t.d. , í brönsinn eða sem léttur kvöldmatur með góðu salati.

tómat og basilíku galette
tómat og basilíku galette

Deig

200 g hveiti
100 g smjör, kalt
60 ml vatn, kalt
1 tsk salt

Hér er mikilvægt að bæði smjör og vatn sé kalt og gott er að skera smjörið í litla kubba. Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél og hrærið saman í 1-2 mín. Hellið þá úr skálinni á borð og mótið kúlu úr deiginu. Setjið deigið í plast og þrýstið aðeins niður á deigið svo það sé auðveldara að rúlla það út. Kælið í klst.

Bakaðir tómatar

6 tómatar

Stillið ofn á 200°c. Skerið tómatana í u.þ.b. cm breiðar sneiðar og leggið á bökunarpappírs klædda ofnplötu. Setjið tómatana inn í ofn í 20-25 mín. Þetta er gert til að draga úr vökvanum á tómötunum og þeir verða alveg dásamlega sætir við þetta. Takið tómatana út úr ofninum og leyfið þeim að hvíla meðan þið fletjið út deigið.

Fylling

1 msk maizenamjöl
Bökuðu tómatarnir
handfylli af basilíku
1 tsk gróft salt
pipar, eftir smekk
1 dós mozzarella kúlur
1 msk smjör, kalt
egg til að pensla

Samsetning

Stillið ofn á 200 °c. Takið deigið úr ísskápnum og fletjið út í u.þ.b. 30 cm breiðan hring. Setjið deigið á bökunarpappírs klædda ofnplötu. Sáldrið þá maizenamjöli yfir en það er gert til að draga smá vökva í sig frá tómötunum. Raðið þá tómötunum ofan á deigið og basílikunni yfir en skiljið 2-3 cm eftir að kanti. Dreifið þá mozzarella kúlum yfir tómatana og sáldrið salt og pipar yfir.

Þá er það bara að brjóta kantana inn og passið að það sé ekki glufur í deiginu svo það leki ekkert af fyllingunni úr við bakstur. Gott er að setja nokkra smjörklumba yfir fyllinguna og svo er bara að pensla deigið með eggi.

Bakið í 25-30 mín og leyfið henni að kólna í 5-10 mín.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like