Kvöldmatur

Ljúffeng núðlusúpa með kjúkling

May 18, 2021
núðlusúpa

– Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnillegan–

Ég er mjög hrifin af asískri matargerð en er því miður enginn sérfræðingur hvað á uppruna frá hvaða landi. Mér finnst þessi matargerð heilt yfir bara svo heillandi, oft stútfull af grænmeti, kryddum og allskyns gúmmelaði.

Svo ég ákvað að demba í eina núðlusúpu, hún er ótrúlega bragðgóð með hvítlauk, engifer og kóríander og auðvitað sriascha sósu. Það góða við þessa súpu er að það er mjög auðvelt að stjórna hversu sterk hún er. Gott viðmið er ein msk – mild, 2 msk miðlungs og þrjár fyrir sterka. Ég persónulega er þarna á milli 1-2 msk en held ég flokkist undir að vera dálítil mús í þessum málum.

núðlusúpa

Núðlusúpa – fyrir 3-4 –

2 msk olía
4 hvítlauksgeirar
handfylli af kóríander
2 cm engifer (2 tsk kryddið)
1-2 msk tabasco sriracha sósa
400 ml kókosmjólk
500 ml vatn
1 kjúklingakraftur
2 msk fiskisósa
200 g eggja eða hrísgrjónanúðlur
500 g kjúklingakjöt
salt og pipar

Setjið olíu í pott ásamt pressuðum hvítlauk, niðurskornum kóríander og engifer á miðlungshita í 2-3 mín. Bætið þá sirascha sósunni saman við ásamt kókosmjólkinni, vatni, krafti og fiskisósu. Leyfið suðunni að koma upp og malla í nokkrar mínútur. Gott er að setja smá salt og pipar.

Meðan súpan sýður, sjóðið núðlur eftir leiðbeiningum á pakka í öðrum potti (einnig hægt að setja núðlurnar ofan í súpuna og sjóða þar). Skerið kjúklinginn í strimla og steikið á pönnu og kryddið léttilega með góðu kjúklingakryddi.

Setjið núðlurnar og kjúkling í skál og hellið súpu yfir. Gott er að bera fram með niðurskornum chili, kóríander og jafnvel vorlauk.

Ef þið viljið gera súpuna mat meiri myndu gulrætur, brokkolí og t.d. mini maís henta vel með súpunni.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –


You Might Also Like