Kvöldmatur

Blómkálssúpa

September 21, 2023
blómkálssúpa

Ég fæ alltaf reglulega löngun í blómkálssúpu, sérstaklega þegar fer að líða á haustið. Hún slær alltaf í gegn á mínu heimili svo mér fannst vera kominn tími til að deila henni með ykkur.

Súpan er góð, einföld og ótrúlega hentug fyrir budduna. Mér finnst best að mauka hluta af blómkálinu en á sama tíma finnst mér svo gott að hafa slatta af blómkálsbitum í til að hafa smá bit í henni. Súpan rennur alltaf ljúft niður í alla unga sem aldna hér.

Mér finnst best að bera hana fram með nýju brauði og áleggi.


Blómkálssúpa – fyrir 4-6 –

1 meðalstór blómkálshaus
50 g smjör
100 ml hveiti
1 l. vatn
300 ml mjólk
250 ml rjómi
1 grænmetiskraftur
1 kjúklingakraftur
1-2 tsk salt
1 tsk pipar

Skerið blómkálið niður litla bita og setjið í pott ásamt einum líter af vatni. Leyfið suðunni að koma upp og sjóða í u.þ.b. 10 mín.

Takið þá annan pott og stillið á miðlungshita. Setjið smjörið út í pottinn og leyfið að bráðna, bætið þá 100 ml af hveiti saman við og hrærið saman í hveitibollu. Slökkvið undir blómkálinu og byrjið að bæta vökva í smjörbolluna. 100 ml í einu (1 dl), hrærið vel saman og bætið alltaf smá og smá vatni við. Þegar þið hafið sett 500 ml af vatninu saman við er gott að bæta mjólkinni og rjómanum saman við ásamt kraftinum og salt og pipar.

Þegar allt er komið í súpuna er gott að taka helming af blómkálinu, setja í súpuna og mauka með töfrasprota. Bætið þá hinum helmingnum af blómkálinu saman við og restina af vatninu. Þá ætti súpan að vera klár.

Njótið!

– Ert þú að fylgjast með á Instagram @dodlurogsmjor? –

You Might Also Like