Kökur

Einfaldasta eplakakan

May 8, 2021
eplakaka

– Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnillegan–

Einhverstaðar áskotnaðist mér þessi uppskrift fyrir mörgum árum síðan, gerði hana ítrekað fyrir gesti og ýmis tilefni svo fór hún bara eitthvað aftast í bunkann og gleymdist.

Svo sannarlega kominn tími til að rifja hana upp en ég virðist vera að deila með ykkur mikið af uppskriftum þessa mánuðina sem eru og hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér í gegnum tíðina. Sem er auðvitað möst að hafa hér á síðunni í bland við nýjungar og tilraunir.

Að þessu sinni betrum bætti ég uppskriftina með því að setja Dumle choco chewie saman við kökuna og það setti alveg punktinn yfir I-ið, get ég sagt ykkur!

Svo hér er uppskriftin og ég lofa hún er svo einföld í framkvæmd! Ég meira segja sleppi nákvæmninni minni að þessu sinni og nota grömm og bara skelli í dl mál í þetta sinn þar sem þetta er ekki nákvæmnis kaka.

eplakaka
eplakaka

Einfaldasta eplakakan með Dumle

1 pk Dumle choco chewie
50 ml rjómi
3 epli
2 dl haframjöl
2 dl brauðrasp
1½ dl sykur
1-2 tsk kanill (eftir smekk)
100 g smjör

Setjið Dumle karamellurnar og rjóma saman í pott á miðlungs hita og leyfið að malla í 5-10 mín, lækkið frekar hitann og leyfið að vera allan tímann ef súkkulaðið er allt bráðið.

Stillið ofn á 200°c. Skrælið eplin og skerið í þunnar sneiðar.

Blandið þá saman í skál, haframjöli, brauðraspi, sykri og kanil og hrærið létt saman með skeið. Ef smjörið er kalt skerið það í smáa bita ef það er við stofuhita er ekkert mál að klípa það í sundur.

Samsetning

Raðið einum þriðja af eplunum í botninn á eldföstu móti (u.þ.b. 20-25 cm), setjið þá einn þriðja af þurrefna blöndunni yfir og helming af karamellunni. Klípið þá smjör yfir, svona 10 litla bita. Raðið þá öðru lagi af eplum ofan á og endurtakið með þurrefnum, karamellu og smjöri. Þá er seinasta lagið af eplum lagt ofan á, þurrefnin og smjör.

Bakið í 20-25 mín eða þangað til að eplin eru orðin mjúk í gegn.

Gott er að bera fram volgt með ís eða rjóma og jafnvel bræða smá meiri Dumle til þess að hella yfir til að gera þetta extra djúsí.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –


You Might Also Like