– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –
Ég var að vandræðast um daginn þegar ég var að baka vöfflur og hugsaði af hverju er þetta allt í einu að flækjast fyrir mér að finna uppskrift því ég hef alltaf átt skothelda uppskrift af bæði pönnukökum og vöfflum. En þá rifjaðist það upp fyrir mér að það voru auðvitað uppskriftir geymdar í bók heima hjá mömmu og pabba.
Uppskriftirnar eru upphaflega úr Hússtjórnarbókinni sem mamma á og þeim ætla ég að deila með ykkur hér, fyrst pönnukökunum og síðar vöfflunum. Þetta er ekki síður gert fyrir mig sjálfa því það gengur auðvitað ekki að vera með uppskrift af einhverju eins mikilli klassík og vera alltaf að vandræðast hvar uppskriftin sé.
Þessa þurfið þið að pinna hjá ykkur – Hún stendur alltaf fyrir sínu!
Pönnukökur – 20-25 stk –
200 g hveiti
2 msk sykur
½ tsk salt
½ tsk matarsódi
2 egg
500 ml mjólk
1 tsk vanilludropar
50 g smjör (eða 2½ msk olía)
Blandið þurrefnunum saman í skál. Þeytið saman egg og mjólk, hellið þá helmingnum af vökvanum saman við þurrefnin og hrærið þangað til kekkjalaust. Bætið restinni af mjólkinni saman við ásamt vanilludropum. Bræðið þá smjörið á pönnunni og hellið saman við.
Best er að baka þunnar pönnukökur úr deiginu. Hrærið reglulega í deigið og þynnið það eftir þörf.
Rúllið upp með sykri eða berið fram með því sem hugurinn girnist.
Njótið!
– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –