Kökur

Súkkulaði & lakkrís ostakaka – með Eitt sett töggum

January 11, 2023
súkkulaði og lakkris ostakaka

Samstarf // Nói Síríus

Góð ostakaka á svo oft vel við, hún getur komið sterk inn sem léttur eftirréttur eða hvaða veislu sem er. Ég man þegar ég bauð fyrst upp á ostaköku í afmæli fyrir 8 árum síðan og það snerti hana nánast enginn, það fóru allir bara í klassíkina. Súkkulaðikakan, brauðrétturinn og marengs slógu í gegn.

En af hverju? Ég held þetta sé smá vani, fáum okkur það sem við þekkjum. En lengi vel var eina ostakakan sem þekkti tilbúna frá MS. En heimatilbúnar ostakökur eru bara allt allt annað og hægt að leika sér með þær endalaust þegar kemur að bragðsamsetningum. Ég vil nú meina að 8 árum seinna erum við orðin vanari að sjá ostakökur á veisluborðum og vitum hverslags lostæti þær eru, ekki satt?

Þið vitið vissulega dálæti mitt á súkkulaði og lakkrís og fannst það tilvalið til að skella í þessa ostaköku en það sem kemur svo skemmtilega á óvart er Nóa kroppið í botninum sem gefur kröns þegar bitið er í og mér persónulega fannst það frábær punktur yfir i-ið í þessari köku.


Botn

150 g Nóa kropp
150 g Digestive hafrakex
150 g smjör

Gott er að nota smelluform af stærðinni 20-25 cm fyrir kökuna.

Setjið Nóa kropp í matvinnsluvél og malið í 5-10 sek, gott er að mylja það ekki of fínt til að fá gott bit. Setjið í kökuformið og gerið það sama við kexið. Bræðið smjörið og hellið yfir mulninginn. Hrærið vel saman eða þangað til að allt er orðið hjúpað í smjöri. Þrýstið vel niður í botninn og setjið síðan inn í kæli meðan fyllingin er útbúin.

Ostakakan

1 pk Eitt Sett töggur
50 ml rjómi

375 ml rjómi
450 g rjómaostur
150 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
¼ tsk salt

Takið töggurnar og setjið í pott ásamt 50 ml rjóma og stillið á lága til miðlungs stillingu. Bræðið saman og leyfið að kólna lítillega.

Þeytið rjómann og setjið í skál til hliðar. Setjið þá rjómaost og flórsykur í skál og þeytið í 2-3 mín, þangað til hann er orðinn léttur í sér. Bætið saman vanilludropum og salti saman við og setjið vélina í gang, þá hellið þið Eitt Sett blöndunni saman við hægt og rólega meðan vélin gengur.

Þá er rjómanum blandað saman við og er það gert með því að setja helminginn af rjómanum saman við blönduna og hrært varlega saman með sleikju. Restinni er svo bætt saman við og klárað að hræra saman.

Takið botninn úr kæli og setjið ostakökuna yfir, dreifið vel úr og sléttið og setjið inn í kæli.

Krem

1 pk Eitt Sett töggur
50 ml rjómi
100 g sýrður rjómi

Bræðið töggurnar og rjóma saman líkt og fyrir kökuna. Þegar töggurnar hafa bráðnað, slökkvið undir pottinum og bætið 100 g af sýrðum rjóma saman við og blandið. Leyfið kreminu að kólna lítillega áður en það er sett á kökuna.

Þegar kremið er orðið volgt takið kökuna úr kæli og dreifið kreminu jafnt yfir og setjið aftur inn í kæli.

Gott er að leyfa kökunni að vera í kæli í minnst 2-3 tíma áður en hún er borin fram.

Njótið!

– Fylgstu endilega einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like