Bakstur/ Kökur

Einfalt rabarbarapæ

July 1, 2020
rabarbara uppskrift

Stundum eru það einföldu hlutirnir sem eru svo góðir. Það á við hér, engar krúsídúllur heldur bara öllu blandað saman í skál og inn í ofn og borið fram volgt með ís eða rjóma.

Ég setti niður rabarabarahaus núna fyrr í mánuðinum og er hann ekki að fara að gefa mér mikinn rabarabara núna á næstunni svo ég bíð róleg og þigg rabarbara hjá nágrannanum í staðinn og skelli í pæ, sultu og allt það sem hugurinn girnist.


rabarbarapæ

Rabarbarapæ

100 g smjör, við stofuhita
200 g sykur
200 g hveiti
1½ tsk lyftiduft
200 ml ab mjólk/súrmjólk
1 tsk vanilludropar
200 g rabarbari

Stillið ofn á 170°c.

Þeytið saman smjör og sykur í 2-3 mín. Bætið hveiti, lyftidufti, ab mjólk og vanilludropum saman við og hrærið varlega saman.

Skerið rabarbarann niður í litla bita og blandið sama við deigið, hrærið létt saman. Smyrjið form að innan með smjöri eða bökunarspreyi. Deigið hentar vel í 20-22 cm hringform, í muffins mót eða deila því í form sem hentar ykkur. Ég setti hana í eitt langt form og skar niður rabarbara yfir eftir breidd formsins og skar þá í tvenn á þykktina bara til skrauts og rest fór í 15 cm form.

Inn í ofn og bakað í 30-40 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn út þegar stungið er í miðju kökunar.

Berið kökuna fram volga með ís eða rjóma- algjört möst! Ef þið leyfið henni að kólna eða setjið jafnvel í frysti, skellið henni þá aðeins inn í ofn til að velgja hana það er svo gott. Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like