Kvöldmatur

Klassík okkar Íslendinga – Kjötsúpa

September 12, 2023
kjötsúpa

Unnið í samstarfi við Toro

Haustið framundan og tilvalið að skella í súpu, ég myndi segja að klassík okkar íslendinga – kjötsúpa tróni á toppnum yfir góðar súpur. Það eru náttúrulega nánast trúarbrögð heima hjá mér að þegar að fer að hausta, þá er gerð kjötsúpa. Mér finnst það reyndar kjörin réttur til að bjóða í mat því ég veit að fólkið mitt segir aldrei nei við kjötsúpu.

Kjötsúpan sjálf er ekki flókin matseld en hún tekur smá tíma, það þarf að gefa henni tíma til að eldast en lítið að hafa fyrir henni. Hráefnin í hana eru auðvitað fullkomin á haustin með grænmetis uppskerunni t.d.

Ég kaupi oftast súpukjöt, því beinin og fitan gefur súpunni mikið og gott bragð en ég vill síður hafa fituna og beinin í súpunni svo ég legg það á mig að hreinsa kjötið frá beinum og fitu og set aftur ofan í. 2,5 kg af súpukjöti verða u.þ.b 500-800 g af kjöti. Svo gott að hafa í huga ef nota á lambagúllas í stað súpukjöts.

Uppskriftin hér að neðan er þokkalega stór en ég mæli með að gera hana alla og við vitum að súpan er oft góð ef ekki betri á degi tvö. Annars er tilvalið að frysta í skömmtum eða bjóða í mat!

kjötsúpa
kjötsúpa
kjötsúpa

Kjötsúpa – fyrir u.þ.b. 8 manns –

2,5 kg súpukjöt
4 l. vatn
1 stór rófa
6 gulrætur
10 kartöflur
1 pk Toro kjötsúpa
1½ dl hrísgrjón
2-3 tsk salt
1 tsk pipar
1 tsk steinselja (má sleppa)

Setjið súpukjötið í stóran pott ásamt vatni, leyfið suðunni að koma upp, lækkið undir og leyfið að sjóða í minnst 30 mín.

Á meðan er gott að skera niður grænmetið, en persónulega finnst mér best að skera það gróft en samt í munnbita.

Eftir 30 mín tek ég kjötið upp úr pottinum og set grænmetið út í. Þá fer ég yfir bitana og sker kjötið frá beinum og mestu fitunni. Setjið kjötið aftur út í pottinn ásamt einum pakka af Toro kjötsúpu, hrísgrjónum, salt, pipar og steinselju.

Leyfið súpunni að krauma í minnst 30 mín en þá er gott að gera smakk og athuga stöðuna á grænmetinu og kjötinu.

Ég vildi að ég gæti sagt berið fram með einhverju en á mínu heimili er súpan stjarnan og borðuð ein og sér. En auðvitað alltaf hægt að bera fram með góðu brauði og smjöri.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like