Kökur

Piparmyntu brúnkur

February 10, 2023
piparmyntu brúnkur

Samstarf // Nói Síríus

Ég hef verið í einhverju piparmyntustuði upp á síðkastið sem er smá skemmtilegt tvist, því ég sæki vanalega ekki mikið í piparmyntu en piparmynta og súkkulaði er virkilega góð tvenna.

Ég ákvað að prófa að nota piparmyntu súkkulaði í brúnkur eða brownies og þær komu ótrúlega vel út. Ég notaði bæði piparmyntu súkkulaði bráðið og saxað niður og gaf það mjög gott piparmyntubragð en hægt er að leika sér með að nota bara bráðið og venjulegt niður saxað eða hvernig sem maður vill gera eða hvaða súkkulaði maður á upp í skáp.

Í tilefni Valentínusardagsins ákvað ég finna til hjartalaga form og stinga kökurnar út og skreyta sem var mjög sætt. En að sjálfsögðu er hægt að skera þær niður í ferninga og þær munu bragðast alveg eins vel.

Ég nota alltaf ferningslaga formið mitt frá Silverwood þegar ég geri brúnkur og það er í miklu uppáhaldi en hægt er að nota ólík form í verkið. Ég pantaði það að utan frá þeim og fá formin þeirra mín 100% meðmæli.

piparmyntu brúnkur

Piparmyntu brúnkur

120 g smjör
200 g sykur
100 g Síríus suðusúkkulaði með myntubragði
2 egg
100 g hveiti
20 g kakó
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt

100 g Síríus suðusúkkulaði með myntubragði
50 g Síríus Rjómasúkkulaði

Stillið ofn á 175°c. Setjið smjör og sykur í skál og bræðið saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, þangað til smjörið er bráðið. Brjótið 100 g af Suðusúkkulaði niður í aðra skál og bræðið súkkulaðið.

Hrærið smjörið og sykurinn létt saman og hellið bræddu súkkulaði saman við og hrærið á ný. Þá er eggjum blandað saman og gott að hræra þau saman við áður en þurrefnum og vanilludropum er bætt saman við. Hrærið allt vel saman.

Skerið súkkulaðið niður í bita, ég persónulega vill hafa þá dálítið grófa en gerið eftir smekk. Hellið súkkulaðinu saman við deigið og hrærið súkkulaðinu saman við með sleikju.

Smyrjið form að innan með smjöri eða Pam spreyi, ég nota 20 cm ferkantað form hér. Hellið deiginu í formið og setjið inn í ofn og bakið í 20-25 mín. Leyfið kökunni að kólna vel áður en hún er skorin.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like