Sætir bitar

Súkkulaðimús með kröns

June 30, 2020
súkkulaðimús

Ég fór í babyshower fyrir stuttu sem síðar breyttist reyndar í trúlofunarpartý, þar sem það fór úr því að sötra kaffi og borða kökur yfir í að skála í kampavín- Alveg dásamlegt, til hamingju með lífið kæru vinir!

Í þessu boði eins og svo oft í svona barnasturtum var þetta pálínuboð s.s. allir komu með eitthvað á borðið.

Ein mætti með þennan skemmtilega desert sem hefur verið gerður í fjölskyldunni hennar í mörg mörg ár og hét því skemmtilega nafni “Mínutu í munni, mánuð á maga“.

Þessi desert sat eitthvað í mér hvað mér fannst hann góður og endaði með því að óska eftir uppskriftinni til að gera og deila með ykkur. Ég gerði smávægilegar breytingar eins og ég þarf einhverja hluta vegna alltaf að gera, alveg óvart. Hann er svo léttur og svona aðeins öðruvísi heldur en bara hefðbundin súkkulaðimús sem er þó alltaf klassísk og góð. Krönsið sem er sett á milli gerir svo mikið.

Hægt er að bjóða upp á hann í einu formi eða deila í glös líkt og ég gerði og skipta þá jafnt á milli.

súkkulaðimús

Súkkulaðimús með krönsi – u.þ.b. 8 manns

Krönsið

100 g smjör
100 g púðursykur
50 g kókosmjöl
100 g hafrar
50 g rúsínur
50 g kornflex

Vigtið öll hráefnin og setjið á pönnu/pott og ristið á miðlungshita í 10-15 mín. Hrærið reglulega í blöndunni og passið að brenna ekki.

Súkkulaðimús

4 eggjarauður
6 msk flórsykur
75 g súkkulaði, dökkt
½ l rjómi

Þeytið eggjarauður og flórsykur þangað til ljóst og létt, 2-3 mín. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Blandið síðan súkkulaðinu rólega saman við eggjarauðurnar og flórsykurinn og leggið til hliðar.

Létt þeytið rjómann og blandið honum varlega saman við súkkulaðiblönduna. Gott er að taka eina sleikju með rjóma og setja ofan í súkkulaðið og blanda varlega saman og færa svo saman í eina skál og blanda létt saman, til að missa ekki loftið úr rjómanum.

Gott er að setja músina í sprautupoka ef þið setjið í glös. Takið til glös 8-10 stk og sprautið mús í botninn, setjið svo krönsið yfir og endurtakið einu sinni.

Setjið í ísskáp og leyfið að kólna í minnst 1-2 klst. Hægt er að gera með góðum fyrirvara, skella í um morguninn til að eiga sem eftirrétt um kvöldið. Ótrúlega einfalt og einstaklega bragðgott!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like