Kökur

Gulrótarkaka með sítrónukremi

February 10, 2020
gulrótarkaka

Ég var eiginlega búin að gleyma hvað gulrótarkaka er góð. Hef ekki bakað slíka í háa herrans tíð, svo ég ákvað að skella í eina slíka. Ég var ekkert að flækja hlutina bakaði hana bara í einu 20 cm formi og skellti kremi yfir og hún bragðaðist svo vel!

Ég gerði svo helling af sítrónusmjöri sem ég átti til inn í ísskáp, er með hálfgert æði fyrir því, það er eitthvað svo gott með öllu og mig langar hreinlega í sítrónu í allt sem ég baka en ég reyni að stilla því í hóf. En ég mæli svo mikið með því að gera sítrónusmjör og eiga inn í ísskáp hjá ykkur, æðislegt með ís, pönnukökum og öllu mögulegu.

gulrótarkaka

Gulrótarkaka

2 egg
150 g sykur
180 g hveiti
2 tsk kanill
2 tsk vanillusykur
½ tsk salt
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
100 g olía, hlutlaus
100 g gulrætur, rifnar

Hitið ofn í 175°c. Hrærið egg og sykur þangað til ljóst og létt. Bætið þurrefnunum saman við ásamt olíu og gulrótum. Hrærið létt saman, rennið í gegnum deigið og athugið hvort öll þurrefnin hafa blandast saman við. Spreyið 20 cm form að innan með baksturspreyi eða smjöri. Hellið deiginu í formið og bakið í 25-30 mín.

Sítrónusmjör

Uppskrift af því finnið þið hér.

Sítrónu smjörkrem

100 g smjör, við stofuhita
200 g flórsykur
2-3 msk rjómi
3 msk sítrónusmjör

Þeytið smjörið í 2-3 mín, bætið flórsykri og rjóma saman við og hrærið aftur í nokkrar mínútur. Setjið sítrónusmjöri saman við, þrjár matskeiðar gefa milt sítrónubragð en ef þið viljið hafa það afgerandi þá mæli ég með að setja fimm matskeiðar. Setjið kremið annað hvort í sprautupoka og sprautið doppur yfir allan flötinn eða smyrjið kreminu á með sleikju.

Njótið!

You Might Also Like