Kökur

Hin fræga Daim terta

October 8, 2020
daim terta

Hver þekkir ekki þessa frægu Ikea Daim tertu? Ég fékk einhverja þörf fyrir að apa hana eftir og lagðist yfir internetið í leit að því hvað hún innihélt. Google translate var góður vinur í þessari leit. Ég rambaði á uppskrift sem ég studdist við og útkoman var dásamleg!

Höfum við ekki öll smakkað þessa köku en aldrei spáð í því hvað hún inniheldur, vitum bara að hún er svo góð og enn betri heimagerð, get ég sagt ykkur. Kakan samanstendur sem sagt af tveimur marengs möndlubotnum og svokölluðu Þýsku smjörkremi, þar sem búinn er til eggjarauðubúðingur og því blandað saman við smjör. Ásamt punktinum yfir I-inu Daim súkkulaðikreminu, hreinn unaður!

daim terta

Ég get hreinlega ekki mælt meira með þessari köku, hún er frábær. Hún sló í gegn hjá öllum aldurshópum líkt og hina fræga Almondy kaka er þekkt fyrir að gera.

Nokkrir punktar:

  • Passið að kæla súkkulaðikremið vel svo hægt sé að hafa þykkt lag á toppnum- Sem er best!
  • Gott er að nota smelluform eða kökuhring, stál eða plast til að setja utan um kökuna þegar hún er sett saman til að fá hana jafnari, ef þú vilt nostra við baksturinn.

Marengsbotnar

6 eggjahvítur
150g sykur
2 tsk vanilludropar
200 g möndlur, malaðar
salt á hnífsoddi

Stillið ofn á 200°c á undir og yfirhita. Þeytið saman eggjahvítur, sykur og vanilludropa. Malið möndlurnar í matvinnsluvél. Stífþeytið eggjahvítu marengsinn, tekur oft um 5-10 mín. Hellið þá möndlunum saman við í 2-3 skömmtum og blandið varlega saman við með sleikju. Deilið marengsnum jafnt á milli tveggja 20 cm forma og bakið í 15-20 mín. Leyfið botnunum að kólna.

Smjörkrem

6 eggjarauður
200 g rjómi
130 g sykur
2 tsk vanilludropar
180 g smjör, við stofuhita
salt á hnífsoddi

Setjið eggjarauðurnar, rjóma, sykur og vanilludropana saman í pott og stillið á miðlungshita. Hér er mikilvægt að fylgjast með pottinum og hræra stöðugt í blöndunni. Þegar að fer að nálgast suðu fer blandan að þykkna og þá er gott að halda áfram að hræra og taka af hita eftir u.þ.b. 1 mín.

Gott er að hella blöndunni í aðra skál og inn í ísskáp í 10-15 mín þangað til að það hefur kólnað vel.

Setjið smjörið í hrærivél og þeytið vel í 3-4 mín. Takið eggja/rjómablönduna úr kæli og með hrærivélina á lágri stillingu hellið saman við hægt og rólega. Þegar öllu hefur verið blandað saman, leyfið vélinni að þeyta vel og hraða stillinguna í nokkrar mín þangað til að þið sjáið að kremið lýsist og þykknar.

Ef það gerist ekki, er gott að setja skálina alla inn ísskáp í nokkrar mínútur og prófa aftur, þá hefur kremið verið aðeins of heitt ennþá.

Daim krem

150 g rjómi
200 g mjólkursúkkulaði
150 g Daim súkkulaði

Setjið rjóma og mjólkursúkkulaði saman í skál og hitið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofn þangað til að það er bráðið saman. Gott er að setja skálina inn í ísskáp til að flyta fyrir að það kólni lítillega.

Saxið Daim súkkulaðið með hníf eða setjið í matvinnsluvél. Takið skálina úr kæli og blandið Daim súkkulaðinu saman við.

Samsetning

Takið fyrsta botnin og setjið á disk, skellið vænum skammt af kremi ofan á og dreyfið vel úr, setjið næsta botn ofan á kremið og krem þar ofan á. Bæði er hægt að hafa kökuna “nakta” á hliðunum, þ.e. að ekki hylja hana með kremi eða setja krem á hliðarnar. Setjið kökuna inn í kæli í 5-10 mín.

Takið kökuna út og setjið súkkulaðikremið yfir kökuna og hliðarnar ef ykkur langar.

Best er að geyma kökuna í kæli eða frysti og skera sneiðarnar kaldar, þannig bragðast hún best (finnst mér).

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like