Kökur

Kókoskaka með súkkulaðisósu og bananakremi

April 12, 2020
kókoskaka

Ég fór af stað í það að baka þessa köku án þess að vera búin að ákveða alveg hvernig hún yrði. Byrjaði á því að baka botnana sem heppnuðust gífulega vel. Leyfði þeim að kólna inn í ísskáp yfir nótt og fór að velta fyrir mér hvernig ég ætti að útfæra hana. Svo ég ákvað að leita álits hjá honum Gulla hvað honum finndist, ótrúlegt en satt stakk hann upp á því að ég myndi prófa að setja bananakrem á kökuna. En til að grína smá þá var þetta afmæliskakan hans í ár. Honum finnst bananar augljóslega mjög góðir í köku, já og bananabrauð!

En ég ákvað að láta verða að því, fannst þetta hljóma góð samsetning og svo smá súkkulaði auðvitað með.

Kókoskaka með súkkulaðisósu og bananakremi, hún klikkaði ekki. Fór undir harða dómnefnd á fjórum heimilum sem gáfu henni glimrandi einkunn og ég vitna í hann Gulla minn en hann hafði orð á því að þetta væri hreinlega nýja uppáhalds kakan hans! Búmm Mic Drop!

Ég á líka son sem er ekki mikill súkkulaði aðdáandi og því koma allar kökur sterkar inn ef þær eru ekki súkkulaðikökur svo mæli með henni ef þið eigið svoleiðis grísi.

kókoskaka

Kókoskaka

240 ml kókosmjólk, úr dós
80 g kókos, grófur
170 g smjör, við stofuhita
300 g sykur
5 eggjahvítur, við stofuhita
270 g hveiti
2 tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
1 tsk salt
120 g sýrður rjómi
2 tsk vanilludropar

Stillið ofn á 175°c, blástur. Mælið magn kókosmjólkar og kókos og blandið saman og leggið til hliðar.

Í hrærivél setjið smjör og sykur og hrærið vel saman í 2-3 mín. Bætið eggjahvítunum saman við og þeytið aftur vel saman. Þurrefnunum er blandað saman við og hrært lítilega. Svo er bara að bæta saman sýrða rjómanum, vanilludropunum og kókosblöndunni saman við og hræra vel saman. Þá er deigið klárt.

Ég notaði 3x15cm form en uppskriftin passar því vel í 2×20 cm form eða jafnvel í skúffu, bara hvað hentar ykkur og hvaða form þið eigið.

Spreyið formin að innan og klæðið botninn með bökunarpappírs hring. Deilið deiginu jafnt á milli forma og bakið í 20 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn úr miðju kökunnar.

Leyfið kökunum að kólna í 5-10 mín, ég hvolfa þeim á bretti til að fá þær jafnar að ofan, pressa lítilega á þær en leyfi forminu að vera svo þær þorni ekki á hliðunum. Eftir þessar 5-10 mín tek ég plastfilmu og set utan um hvern botn og inn í ísskáp og kæli þar alveg niður.

Bananakrem

250 g smjör
500 g flórsykur
3 msk kókosmjólk, úr dós
2 tsk vanilludropar
1 banani
1 tsk sítrónusafi

Hrærið smjörið vel í hrærivél í 2-3 mín eitt og sér. Bætið svo flórsykrinum hægt og rólega saman við smjörið ásamt kókosmjólkinni (sem þið ættuð að eiga í afgang frá kökunni). Bætið síðan vanilludropum saman við og leyfið að þeytast vel og mikið. Á meðan stappið þið bananann vel og blandið sítrónusafanum við hann (Kemur í veg fyrir að bananinn og kremið verði brúnt). Bætið síðan banananum saman við kremið og þeytið vel.

Samsetning

Takið botnana úr kæli og setjið fyrsta botninn á kökudisk. Gott er að nota skömmtunarskeiðar til að setja jafnt magn á milli botnana, ég nota þessa gulu og set tvær kúlur á milli laga u.þ.b. 1½ dl. Dreifi vel úr kreminu og set svo vænan slurk af súkkulaðisósu yfir kremið. Hún var ekki heimagerð heldur virkar að nota allar helstu íssósur landsins og það kemur svona glimrandi vel út!

Setjið næsta botn ofan á og endurtakið ferlið. Þá er seinasti botninn settur ofan og kremi dreift yfir alla kökuna. Þessi er fullkominn í svona ófullkomna áferð svo endilega leikið ykkur með það.

Ég setti grænan matarlit í smá hluta af kreminu til að skreyta, þar sem hún var gerð á páskunum og skreytt með páskaeggjum og súkkulaði bræddu sem kanínueyru. Svo skreytið eftir tilefni þess sem hún er bökuð og njótið!

döðlur og smjör

You Might Also Like