Kökur

Epla skúffukaka með smjörkremi

October 2, 2020
epla skúffukaka

Það er alltaf gaman að fara aðeins út fyrir það sem maður gerir vanalega, ég veit ekki hversu margar skúffukökur ég hef bakað í gegnum tíðina – súkkulaði skúffuköku. En hér er dásamleg skúffukaka sem hentar vel í hálfa skúffu, eldfast form eða hvað sem ykkur hentar.

Svo á ég líka son sem er ekki hrifinn af súkkulaði svo ég fæ alltaf gott hrós frá honum ef ég baka eitthvað sem honum finnst gott og inniheldur ekki súkkulaði. Ég mæli allaveganna heilshugar með því að þið prófið þessa í helgarbakstrinum ykkar.

döðlur og smjör

Epla skúffukaka

250 g hveiti
300 g púðursykur
1 tsk matarsódi
¼ tsk salt
1 tsk kanill
220 g smjör
200 ml vatn
100 ml vanilluskyr / ab mjólk
2 egg
1 tsk vanilludropar
200 g epli

Stillið ofn á 200°c. Vigtið þurrefnin saman í skál, ef þið ætlið að nota hrærivél setjið hráefnin í þá skál. Þá er smjör og vatn sett í pott og hitað á miðlungshita, þangað til að suða kemur upp. Slökkvið undir og hellið rólega saman við þurrefnin og hrærið á sama tíma á lágri stillingu. Blandið síðan skyri/ab mjólk saman við ásamt eggjum og vanilludropum.

Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið í smáa bita. Blandið eplunum saman við deigið. Smyrjið fat að innan sem er minnst 30 cm að stærð hvort sem það er ílangt, hringlótt eða lítil skúffa með baksturspreyi eða smjöri. Hellið deiginu ofan í fatið og inn í ofn. Bakið í 20-25 mín. Leyfið kökunni að kólna í minnst 30 mín.

Smjörkrem

250 g smjör, við stofuhita
500 g flórsykur
3-4 msk rjómi
2 tsk vanilludropar
1 tsk kanill

Setjið smjörið í hrærivél og þeytið vel, bætið svo flórsykri varlega saman við ásamt rjóma og vanilludropum og þeytið í nokkrar mín. Setjið þriðjung kremsins í skál og blandið 1 tsk kanil saman við.

Setjið kremið í nokkra sprautupoka með ólíkum stútum eftir því sem ykkur langar og hvað þið eigið. Dreifið þunnu lagi af kremi yfir kökuna og byrjið að sprauta óreglulega yfir kökuna, þangað til hún hefur öll verið skreytt.

Einnig er hægt að einfalda þetta og dreifa kreminu yfir kökuna með sleikju.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor

You Might Also Like