Kökur

Babyshower fyrir yndislega vinkonu

November 26, 2019
döðlur og smjör

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera búin að lofa sér í bakstur þegar andinn er ekki alveg yfir manni. Á þeim tímapunktum hika ég ekki við að stytta mér leiðir í bakstrinum. Eitthvað sem ég hef tileinkað mér frá því ég hélt mitt fyrsta barnaafmæli þar sem ég var að fara yfir um að allt þyrfti að vera svo tip top. Nei ég geri allt í mínu valdi til þess að njóta baksturs í staðinn fyrir að vera stresshrúga og njóta ekki neitt. En þá kynnum við til sögunar hina margumrómuðu Betty Crocker, hún er æði, það elska hana allir og stundum er hún mjög óþekkjanleg og er ruglað saman við heimabakaða dásemdar köku.

Svo að þessu sinni stytti ég mér allar leiðir, var ekkert að flækja þetta og skellti einum og hálfum kassa af Betty í 3x 7″ form, bakaði, skellti í plast og leyfði að hvíla yfir nótt.

Mánudagurinn kom með öllu sínu trukki og náði ég að skjótast heim á meðan barnið var á fimleikaæfingu, skellti í hefðbundið smjörkrem og náði að hjúpa kökuna. Þá var náð í barnið og honum skutlað úr fimleikum í körfubolta. Mamman aftur heim og kláraði að skreyta kökuna.

Einföld skreyting, keypti súkkulaðidoppur frá Nóa Siríus og stakk þeim inn, þannig að flati hlutinn snéri út á við, dreyfði þeim óreglulega meðfram hliðum kökunar. Restin af kreminu var sett í sprautupoka með stút frá Wilton nr 2D á sem er oftast þekktur sem rósarstúturinn og sprautaði meðfram kantinum ofan á kökunni. Skar síðan jarðaber í tvennt og tyllti ofan á kremið.

Kakan fékk þegar uppi stóð mikið lof, þrátt fyrir að ekki voru 4 tíma vinna á bakvið hana. Báðar leiðir frábærar, fer allt eftir orku og nennu hverju sinni.

Læt fylgja með uppskriftina af hinu skothelda smjörkremi sem allir elska og dá.


Smjörkrem

250 g smjör, við stofuhita
500 g flórsykur
2-3 msk rjómi/nýmjólk
1-2 tsk vanilludropar
matarlitur eftir þörfum

Þeytið smjörið eitt og sér í hrærivél þangað til það hefur náð mjög ljósum lit. Bætið helming af flórsykri saman við og látið blandast vel saman, bætið þá næst mjólkinni og vanilludropum saman við og síðast síðari helming flórsykursins. Þeytið vel, þá meina ég leyfið kreminu að þeytast í góðar 5-10 mínútur þangað til það er orðið hvítt að lit og silkimjúkt.

You Might Also Like