Bakstur/ Í útileguna/ Kökur

Dásamlegar brúnkur (brownie)

February 4, 2020
brownie

Hvað ætli séu til margar uppskriftir af brownies á alnetinu? Þær eru allaveganna þónokkrar! Hvaða uppskrift áttu að fara eftir? Þessari! Er þetta ekki selt?

Nei að öllu gríni slepptu þá hef ég prófað aragrúa af ólíkum uppskriftum og þessi var alveg ótrúlega bragðgóð og djúsí. Þéttar og bragðmiklar. Næst verður það að gera brownie með einhverju ofan á kókos, ostaköku eða einhverju álíka gúmmulaði. Það verður eitthvað extra gott- stay tuned, það mun eflaust rata hingað inn á bloggið áður en þið vitið af.

brownie brúnkur

Brúnkur

225 g smjör
150 g púðursykur
150 g sykur
½ tsk salt
2 tsk vanilludropar
1 tsk kaffiduft (instant kaffi)
3 egg
1 eggjarauða
50 g kakó
100 g hveiti
200 g súkkulaði

Stillið ofn á 175°c. Bræðið smjör og blandið púðursykri og sykri saman við þangað til það hefur myndað einn massa, leggið til hliðar. Setjið í hrærivél salt, vanilludropa, kaffiduft, egg og eggjarauður og hrærið saman í 1-2 mín. Sigtið kakó og hveiti saman við og hrærið saman við. Meðan vélin er að hræra á lágri stillingu, setjið smjör og sykur blönduna saman við deigið. Saxið síðan súkkulaðið niður (einnig hægt að nota súkkulaðidropa, þá sleppið þið þessu skrefi) og blandið saman við deigið.

Smyrjið form 20×20 cm að stærð að innan með smjöri eða spreyi. Ef þið eruð að nota sílikon form er í góðu lagi að setja deigið beint í en ef þið eruð með álform setjið þá bökunarpappír í og spreyið yfir hann og setjið deigið þar ofan á.

Bakið í 25-30 mín og kælið vel áður en skorið er í bita.

Njótið!

You Might Also Like