Deigbakstur

Klassískur vatnsdeigskrans

February 4, 2021
vatnsdeigskrans

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Það styttist í Bolludaginn mikla, þá er um að gera að leggjast yfir matarblogg landsins og sjá hvaða bollu uppskrift manni líst nú best á að þessu sinni. Já eða draga fram uppskriftarbókina frá ömmu.

Að þessu sinni ætla ég einmitt ekkert að flækja hlutina, okey kannski bara aðeins! Hefðbundnar bollur sprautaðar í krans en klassísk og góð fylling, fersk, góð og nóg af rjóma.

Að bera bollurnar fram sem krans er skemmtileg tilbreyting frá bollunum sjálfum t.d. fyrir sunnudagskaffið þar sem hægt er að bera kransinn fram meir eins og köku en stakar bollur. Slær allaveganna alltaf í gegn á mínu heimili.

vatnsdeigskrans

Vatnsdeig

250 ml vatn
100 g smjör
150 g hveiti
4 egg (220 g)

Stillið ofn á 200°c. Setjið vatn og smjör í pott og leyfið smjörinu að bráðna. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til deigið er orðið einn massi. Kælið deigið örlítið. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Teiknið 20 cm hring á smjörpappír og snúið pappírnum við og setjið á ofnplötu. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið deiginu í því munstri sem ykkur hentar á smjörpappírinn. Bakið á 200°c í 10 mín og lækkið niður í 180°c í 20 mínútur. Leyfið kransinum að kólna alveg.

Fylling

150 g rjómasúkkulaði
100 ml rjómi
500 ml rjómi
100 g jarðaber

Bræðið súkkulaði og rjóma saman og leggið til hliðar og leyfið að kólna lítilega. Þeytið rjómann og skerið jarðaberin niður. 

Samsetning

Skerið kransinn þvert, ég mæli með að nota riflaðan hníf í verkið. Svo ef þið eigið þunnt bretti eða diskamottu er gott að “slæda” henni undir efri partinn og færa yfir meðan sett er á neðri helming kransins.

Setjið súkkulaðisósu í botninn, rjómann þar yfir, þar yfir setjið þið jarðaberin og endið með því að setja enn meiri súkkulaðisósu yfir. 

Næst setjið þið efri helminginn varlega yfir þann neðri. Skreytið af vild en ég notaði restina af súkkulaðisósunni og drisslaði yfir ásamt því að setja dálítinn flórsykur yfir en mér finnst hann alltaf skreyta svo fallega.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like