Sultur & drykkir

Rifsberjahlaup

August 24, 2020
rifsber

Það verður að viðurkennast að ég er ekki mikil sultukona, en það eru það allir aðrir á heimilinu mínu. Svo hér eru alltaf til hinar ýmsu tegundir af sultum heimatilbúnum í bland við þær úr búðinni. En þessi er eitthvað sem verður að vera til, því hún er svo gullið hráefni í sósur að mínu mati. Ein teskeið af rifsberjahlaupi saman við sósuna gerir oft eitthvað sósukraftaverk.

Svo finnst mér bara um að gera að nýta hráefnin sem eru í görðunum okkar og víðsvegar á bæjarlöndum.

Annars er ég mjög hrifin af því að týna á þessum árstíma og frysta ber, hvort sem það eru rifsber, bláber eða krækiber. Algjör snilld að eiga í boost eða bökur seinna um veturinn, þegar manni vantar í smá sumar í kroppinn.


Mikilvægt er að hreinsa krukkurnar vel, sjóða þær í potti, setja þær í uppþvottavélina eða þrífa afskaplega vel í höndunum. Þetta er gert til að lengja líftíma sultunar.

Ég nota 3/3 rifsber og 2/3 sykur svo auðvelt er að stækka eða minnka uppskriftina eftir magni berja.

Leyfið stilkum, grænum berjum og laufum að fylgja með í pottinn, þau eru hleypiefnið í hlaupinu og gerir það að verkum að við þurfum ekki að nota tilbúin hleypi.

Rifsberjahlaup 4 krukkur

900 g rifsber
600 g sykur

Setjið rifsber, stilka og lauf saman í pott ásamt sykri. Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur.
Hellið í gegnum sigti og merjið vel með ausu eða sleif, til að ná öllum vökvanum úr gumsinu.

Setjið saftina aftur í pott og suðan látin koma upp og látið sjóða í 1 mínútu. Ef froða myndast veiðið hana af. Hellið í tandurhreinar krukkur og leggið viskastykki yfir meðan þær kólna. Þegar sultan er kólnuð setjið lokin á og herðið vel.

You Might Also Like