Kökur

Súkkulaðiterta – Mars madness

January 9, 2022
súkkulaðiterta

Þann 5. janúar á hann Gulli (maðurinn minn) afmæli og mér finnst gaman að nota tækifærið hvert ár að prófa einhverja nýja og spennandi köku fyrir hann. En í ár var einhver þreyta í kellunni sem varð til að ég gerði vissulega nýja köku en hún var ekki flókin en klassísk góð súkkulaðikaka getur líka verið algjör hitter! Þessi var það svo sannarlega svo góð!

Ég spurði Gulla hvað kakan ætti að heita og þá nefndi hann March Madness og mér fannst frekar fyndið en það er kannski út af því ég er ekki alveg inn í körfuboltanum eins og hann en ef þið þekkið til er þetta úrslitakeppnin í háskólakörfunni í Bandaríkjunum og kakan var í tilefni hans svo leyfum henni bara að bera þetta heiti!

Fullkomin helgar kaka!

súkkulaðikaka
súkkulaðikaka

Súkkulaðiterta

240 g hveiti
350 g sykur
80 g kakó
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
3 egg
1 tsk vanilludropar
100 ml olía
200 ml ab mjólk/súrmjólk
250 ml sjóðandi vatn

Stillið ofn á 175°c. Blandið saman þurrefnunum í hrærivélarskál. Setjið saman í skál/könnu egg, vanilludropa, olíu og súrmjólk og hellið í mjórri bunu saman við þurrefnin með hrærivélina á lágri stillingu. Sjóðið vatn og hellið einnig rólega saman við deigið. Gott er að taka sleikju í lokin og skrapa botninn svo deigið sé allt vel samlagað.

Spreyið tvö form af stærðinni 15-20 cm með Pam spreyi og deilið deiginu í tvennt. Formin sett inn í ofn og bakað í 35 mín.

Leyfið kökunum að kólna – Ef það myndast toppur á kökuna er gott að ýta örlítið niður á toppinn og hvolfa henni síðan á kæligrind.

Mars smjörkrem

350 g smjör
500 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
2 stk mars / 4 lítil
1 dl rjómi

Byrjið á því að þeyta smjörið í 3-4 mín, bætið þá flórsykri hægt og rólega saman við ásamt vanilludropum. Bræðið þá saman mars og rjóma og hellið varlega út í hrærivélina. Kremið verður mjög létt í sér þar sem marsið er volgt en þægilegt að setja á kökuna.

Setjið annan kökubotninn á kökudisk og setjið u.þ.b. helming af kreminu ofan á og dreifið vel úr. Setjið þá seinni botninn ofan á og krem ofan á og dreifið úr því. Þetta krem er mjög ríflegt á kökuna svo alveg eðlilegt að það sé smávegis afgangur fer eftir hversu sjúk í krem þið eruð!

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör? –

You Might Also Like