Kökur

Þriggja laga súkkulaði ostakaka

September 23, 2021
súkkulaði ostakaka

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Trúið þið því þegar ég segi að þessi kaka er ofur einföld í bígerð? Mér persónulega finnst hún algjör show stopper, lögin á milli ólíkra súkkulaði tegunda sem blandast svo vel saman í munni! Namm!

Ég ætla ekkert að rambla of mikið um hana heldur einfaldlega mana ykkur að prufa hana fyrir næsta matarboð eða hvaða tilefni sem ykkur vantar milda og góða köku.


Botn

300 g Hobnobs hafrakex
150 g smjör

Setjið kexið í matvinnsluvél og myljið í mylsnur. Einnig hægt að setja í plastpoka og berja með kökukefli eða einhverju þungu. Bræðið smjör og blandið saman við kexið. Notið 20-25 cm form, helst smelluform. Gott er að smella bökunarpappír ofan á botninn og klemma hann sléttan þegar hliðarnar eru festar við botninn. Pressið kexinu í botninn og kælið inn í ísskáp.

Ostakaka

500 ml rjómi
5 matarlímsblöð
400 g rjómaostur
50 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
100 g hvítt súkkulaði
100 g rjóma súkkulaði
100 g dökkt súkkulaði

Létt þeytið rjómann og leggið til hliðar. Leggið þá matarlím í bleyti í köldu vatni. Þeytið næst saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa. Blandið rjómanum saman við rjómaostablönduna í 2-3 pörtum með sleikju.

Bræðið 100 grömm af hverju súkkulaði í sér skál. Takið þá matarlímið, kreistið kalda vatnið vel úr því og leysið upp í 3-5 msk af sjóðandi vatni, blandið matarlíminu saman við rjómaostablönduna með sleikjunni. Skiptið rjómaostablöndunni í þrennt á milli súkkulaði skálanna þriggja og hrærið saman.

Samsetning

Takið þá kex botninn úr kæli, hellið dökka súkkulaðinu fyrst og jafnið út. Takið þá rjómasúkkulaðiblönduna og hellið varlega yfir og dreifið úr henni. Síðast er það hvíta súkkulaðið, hellið varlega og dreifið vel úr. Kakan er þá sett í kæli í minnst 4-5 tíma.

Takið kökuna úr kæli og rennið hníf eða spaða meðfram kökunni til að losa hana frá forminu. Smellið þá forminu frá og takið bökunarpappírinn undan kökunni og setjið á disk.

Til að skreyta hana líkt og ég geri hér takið 20 grömm af súkkulaði og setjið í skál ásamt 3 msk af rjóma, bræðið saman í örbylgju eða yfir vatnsbaði. Hrærið vel saman og setjið í sprautupoka með mjóum stút. Skerið jarðaber í tvennt og skreytið af vild með jarðaberjum og bláberjum.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like