Já það er spurning hvort að ég sé að skjóta of hátt núna en það er ykkar að ákveða eftir að þið hafið bakað þessar. Þær voru svo góðar eða eins og Gulli lýsti þeim Subway kökur á sterum, ég tek því svo sannarlega sem hrósi.
Stökkir kantar og mjúk miðja fyrir mér er það fullkomin smákaka en vissulega höfum við öll ólíkan smekk og því hægt að hafa þær aðeins stökkari með að lengja baksturstímann örlítið og sama að stytta hann ef þið viljið þær mjög mjúkar.
Í þessar kökur er um að gera að nota súkkulaði sem ykkur finnst gott ég nota blöndu af dökku, rjóma og hvítu í jöfnu hlutfalli. ég var með dropa og skar síðan niður í grófa bita – Gerið það sem ykkur finnst best, litlir eða stórir bitar eða bara dropar.
Súkkulaðibitakökur – 12 stk –
100 g smjör
120 g púðursykur
45 g sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
140 g hveiti
¼ tsk lyftiduft
¼ tsk matarsódi
½ tsk salt
180 g súkkulaði (Dökkt – rjóma – hvítt)
Þeytið létt saman smjör, púðursykur og sykur. Bætið egginu og vanilludropum saman við og hrærið í 1-2 mín. Mælið þurrefnin og hellið saman við deigið og hrærið þangað til að allt er orðið samlagað. Vigtið þá súkkulaðið og skerið niður í grófa bita. Blandið því saman við með sleikju.
Til að fá kökurnar jafnar er gott að vigta þær, þannig að hver kaka er 50-55 g, þá fáið þið 12 kökur. Notið matskeið eða skömmtunarskeið til að mæla kökurnar. Setjið kökurnar á bretti og inn í ísskáp í 30 mín.
Stillið ofn á 180°c. Setjið bökunarpappír á ofnplötu, takið hverja köku og mótið kúlu úr henni og fletjið lítillega með lófunum og setjið á plötuna. Sex kökur á hverja plötu með góðu millibili. Bakið í 11 mínútur. Endurtakið með seinni sex, leyfið kökunum að kólna.
Njótið!
– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –