– Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnilegan –
Kanntu bollu að baka? Mér finnst mjög gaman að baka vatnsdeigsbollur því það er hægt að leika sér endalaust með þær – Hvað fyllingar varða. En svo er það líka alltaf klassíkin, súkkulaði, rjómi og jarðaber eða sulta. Ég kýs yfirleitt fersk ber fram yfir sultuna.
En það að nota súkkulaðismyrjuna einfaldar ótrúlega ferlið. Bara rétt að velgja það og dýfa og svo stífnar það lítilega og verður alveg fullkominn hattur á bolluna – Þar að segja ef þú ert ekki týpan sem færð þér ekta súkkulaði á snúðinn þinn.
En Nusica súkkulaðismyrjan er frábær að því leyti að hún inniheldur ekki hnetur eins og svo margar smyrjur eins og Nutella. En ég kynntist henni fyrst heima hjá mömmu og pabba þar sem mamma mín er með hnetuofnæmi og það er alltaf svo gott að eiga eina svona krukku upp í skáp til að setja á bollur eða með pönnukökunum eða bara því sem hugurinn girnist. Mæli eindregið með henni!
Vatnsdeigsbollur
250 ml vatn
125 g smjör
125 g hveiti
4 egg
Stillið ofn á 180°c. Setjið vatn og smjör í pott og leyfið smjörinu að bráðna. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til deigið er orðið einn massi, kælið deigið örlítið. Setjið deigið í hrærivélarskál og bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Setjið deigið þá í sprautupoka og sprautið bollur á smjörpappírsklædda plötu, eða notið tvær teskeiðar til setja deigið á plötuna. Bakið í 18-20 mínútur. Ef þið viljið hafa bollurnar stærri þá er tíminn aukinn í samræmi við það.
Fylling
1 krukka Nusica súkkulaðismyrja
12 jarðaber
500 ml rjómi
Byrjið á því að skera bollurnar í sundur. Setjið vænan skammt af súkkulaðismyrjunni í skál og hitið í 15-30 sek í örbylgjuofni. Takið þá eftri partinn af bollunum og dýfið ofan í til að gera hatt á bolluna.
Þeytið þá rjómann og skerið jarðaberin í sneiðar. Gott er að setja rjómann í sprautupoka til að sprauta á bollurnar. Sprautið rjóma á bollurnar, raðið þá jarðaberjunum yfir og toppið með því að setja vel af súkkulaðismyrju yfir. Lokið þá bollunum og berið fram.
Njótið!
– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –