Bakstur

Bolla ársins 2022

February 20, 2022
bolla

– Unnið í samstarfi við Royal –

Við erum sammála heima hjá mér að þessi bolla gerist ekki meira en bolla ársins 2022. Með Eitt sett búðinginn góða sem rýkur út úr búðunum þessa dagana – Skiljanlega þar sem ég er á því að þetta sé þeirra besti búðingur frá upphafi, ég vissulega elska lakkrís svo það er kannski ekkert að marka mig. Svo höfum við klassískan súkkulaði hatt og rjóma og toppum þetta með piparfylltum reimum. NAMM!


Vatnsdeigsbollur – u.þ.b. 10-14 bollur –

250 ml vatn
125 g smjör
125 g hveiti
4 egg

Stillið ofn á 180°c. Setjið vatn og smjör í pott og leyfið smjörinu að bráðna. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til deigið er orðið einn massi, kælið deigið örlítið. Setjið deigið í hrærivélarskál og bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Setjið deigið þá í sprautupoka og sprautið bollur á smjörpappírsklædda plötu, eða notið tvær teskeiðar til setja deigið á plötuna. Bakið í 18-20 mínútur.  Ef þið viljið hafa bollurnar stærri þá er tíminn aukinn í samræmi við það.

Fylling

½ pk Eitt sett Royal búðingur
250 ml mjólk
250 ml rjómi
piparfylltar lakkrís reimar

Blandið saman Eitt sett búðing með mjólk og hrærið vel saman, kælið. Þeytið rjómann og gott er að setja hann í sprautupoka en ekkert mál að setja á bolluna með skeið líka. Skerið niður lakkrís reimarnar í u.þ.b. cm bita.

Takið bollurnar og skerið þær í tvennt. Ég mæli með Nusica súkkulaðismyrju til að gera hatt á bollurnar, hita það örlítið í örbylgju og dýfa. Það stífnar í fullkominn bolluhatt að mínu mati.

Takið þá búðinginn og setjið 1-2 msk af honum í botninn á bollunum, magn eftir stærð. Sprautið þá rjómanum yfir og lokið bollunum. Sáldrið þá lakkrísnum yfir bollurnar og berið fram.

Ef bollurnar eru ekki bornar fram strax, geymið þær í kæli.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like