Deigbakstur/ Kökur

Galette með eplum og möndlufyllingu

March 18, 2020
galette

Súrealískt ástand, það er raunveruleikinn okkar þessa dagana. Skert vinna, skertur skóli, skert samskipti við vini og annað fólk. Þetta hefur vissulega áhrif á okkur öll.

Þetta er svo sérstakt ástand og dagurinn í gær fór ekki vel í mig í allri hreinskilni en ákvað bara að leyfa tilfinningunum að ganga yfir því ég held að það sé bara eðlilegt í þessu öllu saman að það koma krefjandi tímar fyrir okkur öll að tækla, en það sem mér finnst alveg magnað er hvað er mikil þolinmæði og auðmýkt í okkur sem ég veit að það er vel metið af öllum þeim sem þurfa að róta upp starfið sitt og breyta til. En svo er annar vinkill á þessum tilfinningum mínum en það er hreinlega öll þessi góðmennska!

Nei þið trúið ekki hvað ég er meir kona, ég á erfitt með að halda aftur af tárunum yfir öllu því fallega og góða sem er að fæðast í samfélaginu okkar í kjölfar Covid-19. Börnin að syngja fyrir eldri borgara, fólk að taka sér að sinna erindagjörðum annara sem komast ekki út af heimilinu, það er bara svo margt fallegt að gerast og ég er meir.

Það var því mjög meðvitað hjá mér í morgun þegar ég vaknaði að taka daginn með ró og gera það sem ég get og reyna að gera það vel.

galette

Það var svo sannarlega sem gerðist varðandi bökuna sem ég gerði, ég er alveg sannfærð að hún hafi bragðast svona vel af því ég setti þolinmæði og ást í hana. Er ekki alltaf sagt að það sé galdurinn á bak við góðan mat?

Gerði deigið í höndunum og var ekkert að drífa mig við það og nostraði við þegar ég flatti það út og raðaði eplunum á, smá klisja en það gefur mér svo ef maður nær að baka eða elda á sínum hraða og ekkert stress eða pressa í kringum það.

En ég er alsæl með þessa böku og mæli svo sannarlega með henni, frábær sem eftirréttur en þá er hægt að gera hana fyrirfram jafnvel deginum áður, geyma inn í kæli og setja hana svo inn í ofn meðan borðað og borin fram heit með ís. Ekkert síðri á sunnudags eftirmiðsdegi með góðum kaffibolla. Njótið!

Bökudeig

160 g hveiti
25 g sykur
1 tsk salt
170 g smjör, kalt
50 ml vatn, ískalt
1 eggjahvíta (til penslunnar)
1-2 msk sykur (perlusykur)

Hægt er að notast við matvinnsluvél eða gera deigið í höndunum. Setjið hveiti, sykur og salt á borðið, gott er að hafa diskamottu undir til að vernda borðið. Skerið smjörið í bita og blandið saman við hveitið í þremur skömmtum. Hægt er að nota hnífa til að saxa smjörið saman við hveitið eða sköfu, smá þolinmæðis vinna en svo þess virði. Mixið saman þangað til að smjörið er orðið mjög smátt. Bætið þá vatninu saman við smá í einu þangað til að deigið er formað, ekki of þurrt en ekki of blautt. Mótið kúlu og þrýstið það aðeins niður, setjið í plast og inn í ísskáp. Leyfið deiginu að hvíla í minnst 2 klst. Hægt er að geyma deigið inn ísskáp eða í frysti ef það er gert fyrirfram.

Ef deigið er gert í matvinnsluvél er hveiti, sykur og salt sett saman í og smjörið skorið niður og sett saman við í þremur skömmtum þangað til að það er orðið kornótt, alls ekki alveg samblandað þvi við viljum halda í litlu smjörblettina í deiginu, það er það sem gerir deigið stökkt eða flaky. Takið deigið úr matvinnsluvélinni og setjið á borð og hellið vatninu saman við og mótið þangað til það er ekki of þurrt en ekki of blautt. Framhald sjá að ofan.

Möndlufylling

70 g marsípan
2 msk smjör, við stofuhita
1 msk hveiti
2 msk sykur
1 eggjarauða
1 tsk vanilludropar
1 tsk möndludropar

Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél og blandið vel saman.

Samsetning

Takið fjögur epli fram, skrælið og skerið í þunnar sneiðar.

Takið deigið úr kæli, setjið dass af hveiti á borðið og takið deigið úr plastinu og á borðið. Byrjið að fletja deigið út með kökukefli með því að fletja alltaf í áttina frá ykkur og snúa deiginu um fjórðung jafnt og þétt. Svo deigið sé laust frá borðinu og jafn þykkt á alla kanta. Bætið hveiti undir ef þarf.

Þegar deigið er útflatt leggið það yfir kökukeflið og færið yfir á bökunarpappír. Dreifið möndlufyllingunni yfir deigið og skiljið u.þ.b. 3 cm eftir frá kanti, til að brjóta inn.

Leggið eplin ofan á eftir hentisemi og brjótið deigið inn á við. Setjið bökuna inn í kæli á meðan ofninn hitnar. Stillið ofn á 210°c. Þegar ofninn er orðinn heitur, takið bökuna úr kælinum, penslið kantana með eggjahvítu og sáldrið sykri yfir. Setjið inn í ofn og stillið á 20 mínútur. Eftir 20 mín. er hitinn lækkaður í 175°c og bakað í 25 mín í viðbót.

Berið fram volga með rjóma eða vanilluís.

döðlur og smjör

You Might Also Like