Kökur

Sítrónukaka

January 21, 2020
sítrónukaka

Þessi kaka myndi eflaust flokkast undir kaffibrauð á hefðbundnu íslensku heimili. Kaka sem væri guðdómleg með smá rjómaslettu og kyngt niður með góðum kaffisopa. Hljómar reyndar mjög vel. Það komu upp alls kyns pælingar út frá þessari köku, hún væri ótrúlega góð sem kökubotn í hárri köku eða sem bollakökur með sítrónusmjöri í miðjunni og hefðbundnu smjörkremi ofan á. Ég fæ hreinlega vatn í munninn við tilhugsunina. Sem sagt þið náið þessu, uppskrift sem væri hægt að aðlaga í alls kyns útfærslur og aldrei að vita að ég prófi að skella í bollakökur með þessu deigi.

Kakan er einstaklega auðveld í framkvæmd, eingöngu tvær skálar, ein með þurrefnunum og hin með vökvanum. Mixað saman og Voila! Deigið klárt! Ég lofa að þetta verður svona einfalt fyrir þig líka. En að uppskriftinni.

Nei, eitt enn! Ég mæli með að nota ferskan sítrónusafa, það gerir kökuna svo miklu betri- en þessi í flöskunni gengur alveg upp.


Sítrónukaka

300 g hveiti (Rautt Kornax)
200 g sykur
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
3 egg
140 g olía
100 g sítrónusafi,
175 g ab mjólk/jógúrt
2 tsk vanilludropar

Stillið ofn á 200°c. Blandið þurrefnunum saman: hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti í eina skál. Í aðra skál blandið saman eggjum, olíu, sítrónusafa, ab mjólk og vanilludropum. Hrærið hráefnin aðeins saman í sitthvorri skálinni og hellið síðan vökvanum saman við þurrefnin. Hrærið vel saman. Spreyið form að innan með smjör/olíuspreyi en ég notaði bökuform sem er u.þ.b. 25 cm í ummál. Hellið deiginu í formið og skellið inn í ofn.

Bakið í 20-25 mín, eða þangað til að prjónn kemur hreinn út þegar stungið er í kökuna.

Gott er að sigta flórsykri yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Þetta tók ekki svo langa stund er það?

You Might Also Like