Ég held ég þekki engan sem finnst kleinur ekki góðar, þær eru bara hreinn unaður nýbakaðar. Mér finnst aftur á móti ekki gott að fá kleinu sem er annað hvort þurr, hörð eða gömul. Mín minning af kleinubakstri er kannski svipuð og ég lýsti hér, magn bakstur sem settur var í frystikistuna og fékk að vera þar. Svo fundust reglulega kleinupokar í einhverju horni á botninum sem voru afþýddar og voru því miður ekki þær allra bestu.
Þannig að kleinubaksturinn hjá mér er eins og með smákökurnar, ég baka og við borðum. Uppskriftin er því ekki fyrir 200 kleinur heldur eru þetta u.þ.b. 50 kleinur sem fara auðveldlega ofan í nokkra munna á einum degi.
Kleinur
550 g hveiti (Rautt Kornax)
100 g sykur
4 tsk lyftiduft
¼ tsk natron
¼ tsk hjartasalt
75 g smjör, við stofuhita
2 egg
125 ml súrmjólk/ab mjólk
100 ml mjólk
2 tsk kardimommur
2 tsk vanilludropar
500-700 ml olía eða palmolín til steikingar (fer eftir potti)
Blandið öllum þurrefnunum saman í skál og myljið smjörið út í með höndunum. Bætið eggjunum saman við ásamt súrmjólk, mjólk, kardimommum og vanilludropum. Dreifið örlitlu hveiti á hreint borð. Takið deigið upp úr skálinni og hnoðið vel á hveiti stráðu borði og hnoðið vel saman. Skiptið deiginu upp í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út þar til hann er um ½ cm að þykkt.
Skerið með kleinu eða pizzaskera, í u.þ.b. fimm cm breiðar lengjur. Skerið tígla með því að skáskera deigið og gerið gat í miðjuna hvers tíguls.
Takið annað hornið og stingið því undir og upp í gatið, þannig að það myndast snúningur. Ýtið hliðunum varlega upp svo kleinan verði fallegri í laginu.
Steikið kleinurnar upp úr vel heitri olíu. Setjið hæfilegt magn í pottinn í einu u.þ.b. 2-4 kleinur miðað við að þið séuð með venjulegan heimilis pott. Steikið í 1-2 mín á hvorri hlið, takið upp úr með spaða og leggið á pappír en gott er að nota dagblöð til að leggja á, þau draga vel í sig umfram olíuna.
Svo er bara að njóta með kaldri mjólk eða góðum kaffisopa!