Kökur

Pavlova með sítrónurjóma og berjum

November 26, 2019
döðlur og smjör

Það er lengi búið að vera á listanum mínum að prufa mig áfram í gera pavlovu, maður festist einhverja hluta vegna svo oft í sömu hlutunum, að baka það sem er öruggt eitthvað sem þú gengur að vísu að heppnist vel. Ég hef verið föst í því að gera alltaf sama marengsinn með sömu fyllingunni því hann slær alltaf jafn mikið í gegn en ákvað núna að fara í hina áttina út í óvissuna og reyna við pavlovuna.

Pavlovan var gerð sem eftirréttur fyrir 17 herramenn sem voru með jólahitting í heimahúsi og búnir að eyða tugum þúsunda í dýrindis steikur og meðlæti, búið að nostra við sósugerð frá því í hádegi og hvaðeina en hvað ætluðu herrarnir að hafa í eftirrétt? Köku úr Costco! Nei ég hélt ekki, þrátt fyrir að vera ekki á staðnum til að njóta með þeim þá skellti ég í tvær kökur fyrir þá og vonaðist að það væri aðeins meira á pari við matagerðina hjá þeim um kvöldið heldur Costco kakan.

Pavlovan var dásamleg, bragðgóð og áferðin æðisleg. Stökkur marens að utan og dúnamjúkur inn í. Ég bjó til sítrónusmjör og blandaði saman við þeyttan rjóma. Drisslaði smá karmellu yfir pavlovuna, skellti rjómablöndunni í miðjuna og skreytti með berjum. Fyrirhöfnin var alls ekki mikil, miðað við hver útkoman var, alveg dásamleg.


Pavlovan

4 (150 g) eggjahvítur
hnífsoddur af salti
60 ml kalt vatn
250 g sykur
1 tsk edik
1 tsk vanilludropar
1 1/2 msk maíssterkja (maizena)

Stillið ofninn á 135°c. Hrærið saman eggjahvítum og salti saman þar til þær eru orðnar léttþeyttar. Stillið á lága stillingu og hellið köldu vatni í mjórri bunu saman við eggjahvíturnar og sykrinum í framhaldi. Stífþeytið, þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að einhver hreyfing sé í skálinni. Blandið þá saman ediki, vanilludropum og maíssterkjunni saman við með sleikju.

Gott er að teikna hring á bökunarpappír til þess að hafa til viðmiðunar þegar pavlovan er mótuð. Tæmið úr skálinni á bökunarpappírinn og mótið í hring, hugsið um að gera eldfjall. Há pavlova með gíg í miðjunni. Þegar þið hafið mótað að mestu, rennið með spaða upp með hliðunum til að fá hana slétta og fallega. Setjið inn í ofn í 60 mín, lækkið hitann í 120°c og bakið í 45 mín- Bannað að opna ofninn meðan pavlovan bakast. Slökkvið á ofninum og leyfið henni að hvíla í ofninum meðan ofninn kólnar. Miðjan mun falla en það er eðli pavlovunar og gefur rýmið fyrir fyllingu.

Sítrónusmjör

40 g sítrónusafi
1 tsk sítrónubörkur
20 g smjör, við stofuhita
1 egg, við stofuhita
1 eggjarauða
55 g sykur

Allt sett í blandara og blandað saman þangað til að öll hráefnin hafa blandast vel saman, það á það til að skilja sig í upphafi þá er bara að halda áfram að blanda þangað til allt er rennislétt. Þá er blandan sett í pott á lágan hita og hrært í öðru hverju. Eftir smá tíma fara að myndast þykkar búbblur sem segir til að það er byrjað að þykkna, hrærið aðeins og takið svo af hellunni og hellið í hreint ílát og leyfið að kólna

Samsetning

Setjið pavlovuna á kökudisk en ég notaðist við eldfast mót frá Blitz að þessu sinni sem mér fannst koma vel út, þar sem fara átti með hana á milli staða. Hrærið 5 dl af rjóma þangað til hann er léttþeyttur, blandið sítrónusmjörinu saman við með sleikju og hrærið saman. Færið rjómann í gíginn á pavlovunni, drisslið smá karmellusósu yfir (ég nota alltaf heitu karmellusósuna frá Kjörís, án þess að hita hana). Sléttið úr rjómanum og skreytið með berjum eða því sem hugurinn girnist. Í lokin er fallegt að sigta örlítið af flórsykri yfir berin einfaldlega til að fegra kökuna enn meira, það var gert eftir myndatöku að þessu sinni.

You Might Also Like