Á mínu heimili þýða þroskaðir bananar að það sé tími til að baka og það liggur við að ég kunni bananabrauðs uppskriftina mína utan bókar og geti skellt í brauð með bundið fyrir augun – og hana nú!
Þrátt fyrir að allir á heimilinu elski ný bakað bananabrauð þá langaði mig að breyta aðeins til að þessu sinni. Ég notaði grunnuppskriftina mína af bananabrauði með smá breytingum, bætti við það pekan hnetum og súkkulaði og úr varð þetta dýrindis góða kaka og með kremi varð hún alveg dásamleg.
Kremið er einstaklega létt og gott og passar ótrúlega vel við hvaða kökur sem er og myndi sóma sér vel með súkkulaðiköku mhmm… Það er eflaust ekki allra þar sem ég nota egg í kremið en við búum á Íslandi og ég treysti því allaveganna vel að borða eggin hrá en annars er einnig hægt að kaupa gerilsneyddar eggjahvítur og rauður í brúsum.
Kakan var svo sannarlega fljót að klárast sem er alltaf gott merki og hún verður endurtekin við fyrsta tækifæri, því get ég lofað.
Bananakaka
2 egg
200 g sykur
2 bananar
300 g hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
½ tsk kardimommur, krydd
½ tsk kanill
150 g smjör- brætt
50 g dökkt súkkulaði
50 g pekan hnetur
Stillið ofn á 170°c
Hrærið egg og sykri vel saman, þeytið í 3-4 mínútur.
Stappið banana á bretti og bætið út í ( Í hreinskilni þá skelli ég þeim alltaf bara beint ofan í hrærivélina og leyfi vélinni að tæta þá niður). Þeytið vel í nokkrar mínútur.
Bætið þurrefnunum saman við og hrærið, byrja varlega og síðan á fullum hraða. Bræðið smjörið og blandið saman við í lokin.
Ég nota 20 cm ferkanntað form hér, svo vel hægt að nota 20 cm hringlaga form. Spreyið að innan með PAM spreyi eða smyrjið formið að innan með smjöri.
Hellið í formið og setjið inn í ofn. Bakið í 35-40 mín. Leyfið kökunni að kólna í forminu í 5 mín, takið úr forminu og leyfið að kólna enn frekar í u.þ.b. 30 mín.
Súkkulaðikrem
170 g smjör, við stofuhita
200 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
85 g dökkt súkkulaði, brætt
2 egg, köld
Setjið smjör, flórsykur og vanilludropa í hrærivél og þeytið vel saman í 3-4 mín. Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og leyfið að kólna lítillega. Þegar súkkulaðið hefur kólnað aðeins blandið því saman við kremið, gott er að taka sleikju og skrapa meðfram skálinni svo kremið blandist enn betur saman. Eggjunum er bætt út í eitt í einu og hrærið eggið vel saman við kremið áður en það seinna er sett út í.
Kremið er ótrúlega létt í sér og því mikilvægt að kakan sé köld þegar það er sett á. Ég setti kremið í sprautupoka með opnum stjörnustút á og sprautaði í doppum yfir kökuna. Reif síðan dökkt súkkulaði yfir til skrauts.
Njótið!
– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –