Smákökur

Lakkrís sörur

November 27, 2021
lakkrís sörur

Ætli sörur og lakkrístoppar berjist um toppsætið í íslenskum jólabakstri ár hvert?

Bæði náttúrulega algjört sælgæti! En að þessu sinni ákvað ég að leyfa mér að taka hina hefðbundnu sörur og breyta aðeins til og setja á þær lakkrískrem og rjómasúkkulaði hjúp og namm hvað þær eru góðar! Ég er náttúrulega elska lakkrís það er mitt uppáhalds nammi og þegar vel heppnast að setja lakkrís í uppskrift er ég alsæl kona.

Hér vill ég meina að útkoman er dásamleg ég allaveganna hef ekki látið frystirinn í friði frá því ég gerði þær – liggur við helli mér upp á kaffi bolla til að hafa afsökun um að fá mér sætt með. En vona að þið prófið og endilega deilið með mér hvort þið eruð jafn hrifin og ég!


Makkarónur – u.þ.b. 40 stk –

3 eggjahvítur
200 g möndlumjöl
200 g flórsykur

Stillið ofn á 180°c. Stífþeytið eggjahvíturnar. Sigtið saman í skál möndlumjölið og flórsykur. Blandið þurrefnunum varlega saman við eggjahvíturnar.

Setjið blönduna í sprautupoka, gott er að nota hringlaga stút og sprautið dropum á bökunarpappír, ég vil ekki hafa mínar sörur mjög stórar svo ég miða við ca stærð á við 10 kr pening. Setjið í ofn og bakið í 10-15 mín. Þangað til ljósbrúnar.

Smjörkrem

100 g gammeldags lakrids frá Sanbó
1½ dl vatn
6 eggjarauður
300 g smjör
200 g mjólkursúkkulaði til hjúpunar

Bútið lakkrísinn niður og setjið ásamt vatni í pott og stillið á miðlungshita. Leyfið honum að malla í pottinum í u.þ.b. 10 mín þangað til að blandan er soðin saman í sýróp. Setjið þá eggjarauðurnar í hrærivél og hrærið þangað til þær eru kremgular og þykkar.

Hrærið í eggjarauðunum og hellið sýrópinu í mjórri bunu saman við eggjarauðurnar, passa þarf að gera það ekki of hratt svo sýrópið sjóði ekki rauðurnar. Þegar sýrópið er allt komið saman við eggjarauðurnar, þeytið saman í u.þ.b. 4-5 mín eða þangað til skálin er orðin kald/volg viðkomu.

Skerið smjörið í litla teninga og með vélina í gangi, skellið einum og einum teninh í einu ofan í skálina, þangað til allir eru komnir ofan í, hrærið þá áfram í nokkrar mínútur.

Samsetning

Setjið kremið í sprautupoka, ef það er mjög mjúkt skellið því inn í frysti í nokkrar mínútur. Sprautið á skeljarnar með hringlaga stút, annað hvort setjið þið kökurnar svona beint í kæli/frysti eða takið ykkur smjörhníf og dreyfið úr kreminu út að köntum. Kælið kökurnar þangað til þær eru vel kaldar, bræðið þá súkkulaðið yfir vatnsbaðið í djúpri skál.

Dýfið krem partinum ofan í súkkulaðið og leggið á smjörpappír. Kökurnar eru svo best geymdar í frysti og teknar út stuttu áður en á bera þær fram. 

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like