Smákökur

Mömmukökur

December 17, 2020
mömmukökur

Þetta eru kökur æskuminninga minna. Mamma bakaði og maður var settur í það að setja krem á milli, enda mun betri í því heldur en mamma hún setti alltaf svo lítið krem, það verður að vera dáldið vel af kremi.

Svo þegar kom að því að setja þær saman hér fyrir þessi jól og krakkarnir hjálpuðu til voru mín viðmið ekki alveg þau sömu og þeirra einn setti öggupons meðan næsti setti vel af kremi! Dásamlegt hvað við erum með ólík viðmið.

En ég verð nú að koma því að, að þegar ég óskaði eftir uppskriftinni frá mömmu þá sagði hún við mig að ég yrði nú að segja frá því að þessi uppskrift á uppruna sinn í Hússtjórnunarskóla íslands þar sem mamma fór á námskeið veturinn 1973 og uppskriftin fylgt mömmu síðan.

Þetta eru svo dásamlegar kökur sem flestum finnst góðar, mildar og bragðgóðar – Svo skellið á ykkur svuntuna og dembið ykkur í baksturinn!


Mömmukökur

125 g sykur
250 g sýróp
125 g smjör
1 egg
500 g hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk engifer

Hitið saman í potti, sykur, sýróp og smjör og kælið. Egginu er síðan hrært saman við. Sigtið hveitið með matarsóda og engifer og það sett í skál. síðan er vætt í með sýrópsblöndunni og búið til hnoðað deig. Deigið má bíða yfir nótt eða lengur.

Stillið ofn á 180°c – blástur. Deigið er flatt þunnt út og mótað í kringlóttar kökur, sem settar eru á plötu og bakaðar í 6-8 mínútur. Kökurnar eru síðan kældar.

Smjörkrem

200 g smjör, við stofuhita
300 g flórsykur
1 eggjarauða
2 tsk vanilludropar

Byrjið á því að setja smjörið í hrærivél og hrærið í 2-3 mín, bætið restinni af hráefnunum saman og hrærið vel saman.

Gott er að smyrja kreminu á með smjörhníf.

Kökurnar eru lagðar saman tvær og tvær með smjörkremi á milli.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like