Smákökur

Hnetusmjörsdraumur

December 1, 2020
smákökur

Ég er þokkalega vanaföst þegar kemur að smákökum fyrir jólin en reyni alltaf að prófa allaveganna nokkrar nýjar sortir fyrir hver jól.

Þessa uppskrift fékk ég frá yndislegu vinkonu minni henni Elínu, sem er svo flott í eldhúsinu, hún útbýr alltaf svo dásamlega hluti finnst ég alltaf vera að biðja hana um uppskrift af einhverju sem ég er að smakka hjá henni, allt svo gott og ég er ekki einu sinni að ýkja!

Ég hef hingað til alltaf gert bóndakökur sem er mjög svipaðar og þessar með Mónu dropunum ofan á en hnetusmjörið gerir þessar alveg einstaklega góðar. Klassískar jólakökur sem væru æðislegar með kakó eða kaffibollanum á aðventunni.

smákökur

Hnetusmjörsdraumur

230 g smjör, við stofuhita
150 g hnetusmjör
150 g púðursykur
100 g sykur
1 egg
350 g hveiti
½ tsk salt
1 tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar
Rjómasúkkulaðidropar frá Mónu

Stillið ofn á 180°c – Blástur. Setjið saman í hrærivélarskál smjör, hnetusmjör, púðursykur og sykur og hrærið vel saman. Bætið þá egginu saman við og hrærið í 2-3 mín. Bætið þurrefnunum og vanilludropum saman við og hrærið varlega saman svo þurrefnin ausist ekki út um allt.

Leggið bökunarpappír á plötu, gott er að nota matskeið til að áætla stærð á kökunum, tæp matskeið hver kaka. Hnoða hana í bolta í lófanum á sér og fletja hana síðan létt út með því að þrýsta lófunum smávegis saman.

Kökurnar eru þá settar inn í ofn í 12-15 mín.

Þegar kökurnar koma úr ofninu setjið einn Mónu dropa ofan á hverja köku og leyfið þeim að kólna alveg.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like