Deigbakstur

Pizza snúðar

August 28, 2021
pizzasnúðar

Ég fékk smá nostalgíu við það að gera pizzasnúða á dögunum hef bara ekkert verið að gera þá í svo mörg ár. En ég er líka ótrúlega “picky” á pizzasnúða, vill hafa þá svona frekar djúsí. Ekki þurra með engri fyllingu.

En núna þegar skólarnir eru að byrja þá fannst mér ég þurfa að eiga eitthvað gott í frystinum, hef verið mjög dugleg að gera skinkuhorn fyrir krakkana til taka með en langaði að breyta aðeins til eða bara eiga meira en það í frystinum til að grípa og þá koma pizzasnúðar sterkir inn.

Ég spurði ykkur á Instagram á dögunum og þið voruð svo sannarlega til í uppskrift af snúðunum svo hér er hún!


Deig- 24 stk

400 ml mjólk
12 g þurrger ( 1pk / 2-3 tsk)
1 msk sykur
100 ml olía
1 tsk salt
660 g hveiti (Blár Kornax)

Hitið mjólkina þangað til hún er ylvolg, í örbylgjuofni eða potti. Setjið í hrærivélina og bætið þurrgerinu saman við, hrærið létt saman. Leyfið því að standa örlítið meðan þið takið hin hráefnin saman. Bætið þá restinni af hráefnunum saman við og hrærið með krók á lágri stillingu í 3-4 mín.

Takið deigið sem hefur fest við krókinn af og takið deigið í hendurnar á ykkur og hnoðið í kúlu. Setið deigið aftur í skálina og rakt viskastykki yfir.

Leyfið deiginu að hvíla í minnst klst.

Fylling

100 g skinka
200 ml pizzasósa
2-3 msk pizzakrydd
200 g rifinn mozarella ostur

Aðferð

Takið deigið og setjið á hveitistráð borð og skiptið því upp í tvo hluta. Takið fyrri hlutann og fletjið út, reynið að fletja það út í ferhyrning sem er u.þ.b. 60×40 cm ( bara gott að hafa sem viðmið).

Skerið skinkuna niður í litla bita. Dreifið þá helmingnum af pizzasósunni yfir deigið, sáldrið yfir með kryddinu, skinku og osti.

Rúllið þá deiginu upp eins þétt og ykkur tekst til. Takið beittan hníf og skerið rúlluna í tvennt, þá er gott að gera það sama við partana sitthvoru megin og síðan hvern bút í þrennt. Þannig ættu þið að fá 12 snúða úr hvorri rúllunni u.þ.b. einn cm á breidd. Leggið snúðana á bökunarpappírsklædda ofnplötu og leyfið þeim að hefast í 15-20 mín.

Endurtakið með hinn hlutann af deiginu.

Kveikið á ofninum og stillið á 200°c, blástur. Takið eitt egg og hrærið létt saman með gaffli, penslið yfir snúðana og sáldrið svo restinni af ostinum yfir hvern og einn snúð

Bakið snúðana í 5-7 mín eða þangað til þau eru orðin gullinbrún.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like