Sætir bitar

Gulrótarköku muffins með rjómaostafyllingu

March 16, 2023
gulrótar muffins

Samstarf // Gott í matinn

Stundum kemur upp í huga mér eitthvað sem ég verð að prófa að gera, því ég er viss um að það sé stórgóð hugmynd, ekki það að maður sé einhvern tímann að finna upp hjólið í þessum geira en vissulega að koma með sitt að borðinu.

Þessar gulrótarmuffins eru alveg einstaklega mjúkar, bragðgóðar og bara einfaldlega frábærar. Þær koma skemmtilega á óvart þegar bitið er í þær þar sem kremið leynist inn í. Sonur minn 9 ára var yfir sig hrifinn og setti þær í Topp 3 hjá sér en hann er ásamt rest af fjölskyldunni orðinn vel sjóaður smakkari.

gulrótar muffins
gulrótar muffins

Ég sé svo fyrir mér að þær væru frábærar á öll bröns borð, með kaffinu og það sem ég sá stjörnur yfir er að það er frábært að frysta þær og taka eina með sér í nesti í vinnuna til að eiga með kaffinu, hversu geggjað væri það! Er það kannski bara sætabrauðs kellan í mér!


Gulrótar muffins – u.þ.b. 20 stk –

100 g sykur
50 g púðursykur
2 egg
320 g hveiti
1½ tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
1 tsk kanill
½ tsk engifer (má sleppa)
½ tsk salt
180 ml vatn
80 mk olía
100 g gulrætur (u.þ.b. 3 gulrætur)

Stillið ofn á 200°c. Setjið sykur, púðursykur og egg saman í skál og þeytið saman. Bætið þá þurrefnunum saman við og þeytið léttilega saman, bætið þá vatni og olíu saman við og þeytið þangað til að deigið er samlagað. Hér er betra að blanda minna saman heldur en meir. Rífið gulræturnar niður og blandið saman við með sleikju.

Rjómaosta fylling

200 g rjómaostur
40 g flórsykur
1 tsk vanilludropar

Blandið öllu saman í skál og hrærið varlega saman.

Streusel

150 g hveiti
100 g sykur
100 g smjör, brætt
1 tsk kanill
¼ tsk salt

Blandið öllum hráefnum saman í skál og vinnið saman með höndunum.

Samsetning

Sjá muffinsform hér fyrir neðan.

Setjið 1 matskeið af deigi í botninn á hverju formi, takið þá teskeið af rjómaostafyllingu og setjið í miðjuna á hverju formi. Takið þá aðra matskeið af deigi og setjið yfir fyllinguna. Gott er að miða við að formin séu tveir þriðju full.

Takið þá streusel og stráið yfir hverja köku fyrir sig, setjið vel af því á hverja köku. Setjið á bökunarplötu og inn í ofn í 10 mín ef þið eruð með hefðbundin muffins form en 15 mín ef þið eruð með stærri.

Muffinsform

Takið bökunarpappír og klippið niður í u.þ.b. 10×10 cm ferninga.

Takið glas sem botninn passar ofan í muffinsform og hvolfið. Pressið pappírnum niður meðfram glasinu og setjið í muffinsform svo þær haldi sér betur í bakstrinum. Flóknara var það ekki.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like