Samstarf // Nói Síríus
Árið 2015 fékk ég fyrirspurn frá frænku minni um að gera svona Rice Krispies kransaköku og auðvitað sagði ég já, þó ég hefði aldrei ráðist í slíkt verkefni. Kakan kom mjög vel út og frænkan alsæl. Þarf klárlega að grafa upp mynd af henni einhverstaðar. 8 árum seinna eru þessar kransakökur enn jafn vinsælar, enda skil ég það – það finnst flestum Rice Krispies kökur góðar!
Hefði ég fengið að ráða í minni fermingu, hefði þessi verið fyrir valinu. Ég leyfði mömmu minni að panta hefðbundna kransakörfu á sínum tíma því hún elskar kransakökur, það var svo sannarlega ekki fyrir mig.
Ég þurfti vissulega aðeins að rifja upp hvernig ég gerði hlutina og tók það mig tvær tilraunir því í fyrra skiptið setti ég hreinlega bara allt of mikið rice krispies svo lærið af minni reynslu, það á að vera mikið súkkulaði á móti Rice Krispies. Það gerir allt miklu auðveldara að móta og kökunni að halda sér. Svo er það auðvitað bara miklu bragðbetra!
Rice krispies kransakaka
500 g suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
150 g smjör
1 dós síróp (þessi græna klassíska)
½ tsk salt
300 g Rice Krispies
Setjið saman í pott, suðusúkkulaði, smjör, síróp og salt og bræðið saman á miðlungshita. Þegar allt er bráðnað vel saman. Vigtið Rice krispies og blandið saman við.
Takið þá kransakökumótin og spreyið með PAM spreyi, byrjið á því að gera ysta og innsta hringinn, svo þarf að losa þá frá og gera miðju hringinn seinast. Gott er að vera í einnota hönskum og spreyja PAM einnig á hendurnar. Kemur í veg fyrir að blandan festist við hanskana og gerir auðveldara fyrir að móta hringina.
Byrjið á því að taka smávegis og setja formin, einn hring í einu. Reynið að hafa hringina jafna á hæð og breidd. Gott er að kæla formin áður en hringirnir eru losaðir frá, gerir það auðveldara að losa þá. Losið hringina frá með því að stinga óbeittum hníf meðfram forminu smá og smá á hverjum stað allan hringinn þangað til að hann losnar.
Samsetning
100-150 g suðusúkkulaði
Bræðið súkkulaðið. Finnið til disk til að hafa kökuna á og setjið örlítið súkkulaði undir fyrsta botninn til að festa hann við diskinn.
Svo er gott að setja smá rönd af súkkulaði ofan á hvern hring og staðsetja næsta hring ofan á og koll af kolli. Skoðið kökuna reglulega í ferlinu, til að passa upp á að hún sé eins bein og hægt verður.
Leyfið súkkulaðinu að harðna og skreytið síðan að vild. Að þessu sinni nota ég fersk blóm.
Njótið!
– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –